Erlent

Peningaslóð Trump og Rússa sögð liggja til Íslands

Kjartan Kjartansson skrifar
Leiddar hafa verið líkur að því að Trump gæti verið að fela fjárhagsleg tengsl við Rússa í skattaskýrslum sínum sem hann vill ekki birta.
Leiddar hafa verið líkur að því að Trump gæti verið að fela fjárhagsleg tengsl við Rússa í skattaskýrslum sínum sem hann vill ekki birta. Vísir/Getty
Hagnaður af hótelframkvæmdum Donalds Trump í New York sem bankar og fjárfestar töpuðu á hvarf inn í íslenskan banka sem var undir hæl rússnesks auðjöfurs. Þetta sagði bandarískur blaðamaður sem hefur meðal annars birt upplýsingar úr skattskýrslum Trump við MSNBC í gær.

Blaðamaðurinn David Cray Johnston var gestur í þætti Ari Melber á MSNBC-sjónvarpstöðinni í gær. Þar var rætt um rannsókn sem nú stendur yfir á mögulegu samráði Trump og samstarfsmanna hans við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna. Johnston birti meðal annars hluta úr skattaskýrslu Trump fyrr á þessu ári.

Greint hefur verið frá því að rannsakendur séu mögulega að kanna fjármálagjörninga sem tengjast Trump og Rússum en eru ekki beint tengdir forsetakosningunum.

FL-Group var bendlað við möguleg skattsvik Trump

Í þætti MSNBC leiddi Mike Lupica, dálkahöfundur New York Daily News, því upp að eitthvað misjafnt væri að finna í skattaskýrslum Trump sem hann hefur staðfastlega neitað að gera opinberar og hvort að honum hafi mögulega verið bjargað frá skuldum.

Johnston sagðist telja að engin vafi leiki á því að vafasamir fjármálagjörningar komi út úr rannsókninni. Trump hafi átt í fjárhagslegum tengslum við Rússland allt frá því á 9. áratug síðustu aldar.

„Eitt af því sem hann gæti verið mjög áhyggjufullur yfir er Trump-SoHo-málsóknin sem þeir hafa kappkostað við að reyna að láta hverfa þar sem hagnaður af hótelverkefni í New York, sem bæði bankar og fjárfestar töpuðu á þrátt fyrir að að það væri arðbært, hvarf í samningi sem Donald skrifaði undir sem 18% hluthafi í verkefninu inn í íslenskan banka sem var undir hæl rússnesks auðjöfurs,“ sagði Johnston.

Vísir sagði frá því í fyrra að Trump sé grunaður um að hafa reynt að koma sér undan milljóna dollara skattgreiðslum í tengslum við fimmtíu milljón dollara fjárfestingu FL-Group í alþjóðlega fjárfestingafélaginu Bayrock Group árið 2007.

Fjárfestingin var á sínum tíma sögð varða uppbyggingu hótels í SoHo í New York.

Í myndbandi MSNBC má heyra Johnston lýsa mögulegum tengslum Íslands við viðskipti Trump eftir um tvær mínútur og fimmtán sekúndur af upptökunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×