Skoðun

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Almenn eining ríkir um að gera þurfi betur í heilbrigðismálum. Þverpólitísk sátt náðist á Alþingi í vor þegar samþykkt var þingsályktunartillaga Framsóknarflokks um gerð heilbrigðisáætlunar. Þrjú verkefni þola ekki bið. Hjúkrunarheimilum þarf að fjölga, reisa þarf þjóðarsjúkrahús og efla þarf heilsugæslu.

Fjölga hjúkrunarheimilum: Sjúklingar liggja lengur inni á Landspítalanum (LSH) en gengur og gerist annars staðar. Reisa verður fleiri hjúkrunarheimili til að fækka biðsjúklingum á LSH. Stór fjöldi sjúklinga sem lokið hefur meðferð bíður eftir því að komast að á hjúkrunarheimili. Legudeildarpláss er dýrara en pláss á öldrunarstofnun og það fer ekki eins vel um þessa sjúklinga á LSH, þar sem áreitið er meira. Það er hagur allra að bæta úr á þessu sviði og fellur undir heildstæða heilbrigðisáætlun.

Framtíðarþjóðarsjúkrahúsið: Ein stærsta og merkilegasta framkvæmd á teikniborðinu er þjóðarsjúkrahúsið. Þjóðin eldist og þörfin eykst fyrir fyrsta flokks þjónustu. Þjóðarsjúkrahús á að vera miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem rými er fyrir stækkun í tímans rás. Ljóst er að fyrirhuguð uppbygging við Hringbraut byggir á margra ára gömlum hugmyndum og þarfagreiningu sem er hugsanlega ekki í takt við þarfir framtíðar. Mestu skiptir að nýtt sjúkrahús uppfylli þarfir þjóðarinnar.

Eflum heilsugæslu: Ráðgjafafyrirtækið McKinsey vann úttekt um heilbrigðiskerfið haustið 2016. Heilbrigðiskerfið byggir á nokkrum samhangandi þáttum, m.a. heilsugæslu, sérfræðilæknum, LSH og hjúkrunarheimilum. Skil milli þessara þátta eru óljós. Sjúklingar liggja lengur á sjúkrahúsum hér en annars staðar, sérfræðilæknar gætu læknað sjúklinga sem heldur leita til LSH og heilsugæslan ætti að annast sjúklinga sem leita lækninga annars staðar í kerfinu. Með öðrum orðum vantar skipulag í kerfið og hægt væri að veita sömu þjónustu á hagkvæmari hátt. Ég vil nýta fjármunina sem sparast til að veita betri þjónustu. Velferðarsamfélagið okkar krefst þess að við gerum betur. Sýnum það í verki. Vinnum heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Höfundur er varaformaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×