Hópur manna réðst á heimili Jimmie Åkesson, leiðtoga Svíþjóðardemókrata, í borginni Sölvesborg í suðurhluta Svíþjóðar í gærkvöldi.
Sambýliskona Åkesson, Louise Erixon, greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir árás gærdagsins vera þá verstu til þessa, en alls ekki þá fyrstu.
„Versta árásin á húsið í gærkvöldi, en í þetta skiptið vildu þeir (auk þess að þekja gaflinn og bílinn með eggjum og sprengja flugelda) einnig komast inn í húsið,“ segir Erixon.
Lögregla í borginni hefur staðfest í samtali við Expressen að tilkynning um árás hafi borist. Árásin átti sér stað um klukkan 21 að staðartíma.
Åkesson sjálfur var staddur í höfuðborginni Stokkhólmi þegar árásin var gerð.
Svíþjóðardemókratar eru þriðji stærsti flokkurinn á sænska þinginu og hefur barist gegn straumi innflytjenda til landsins.
Ráðist á heimili Jimmie Åkesson
Atli Ísleifsson skrifar
