Erlent

Eggjaskandall beggja vegna Ermarsunds

Kjartan Kjartansson skrifar
Lítil hætta er á að mönnum verði meint af þó að þeir kæmust í snertingu við menguðu eggin.
Lítil hætta er á að mönnum verði meint af þó að þeir kæmust í snertingu við menguðu eggin. Vísir/AFP
Matvælastofnun Bretlands kannar nú hvernig egg sem voru menguð skordýraeitri gátu borist þangað til lands. Menguð egg hafa einnig fundist í Frakklandi. Engin hætta er þó talin stafa af menguninni.

Í ljós hefur komið að egg frá hollenskum eggjabúum hafi verið menguð með eiturefninu fipronil. Það getur valdið skaða á nýrum, lifur og skjaldkirtli, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Bresk yfirvöld telja engu að síður að ólíklegt sé að fólki verði meint af eggjunum og Bretum hefur ekki verið ráðið frá neyslu þeirra. Þau telja að um 21.000 eggjum frá býlum þar sem mengunarinnar hefur gætt hafi verið dreift í Bretlandi frá mars til júní.

Egg tekin úr sölu í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi

Óttast er að bændur í Hollandi þurfi að slátra milljónum hæna til að losna við mengunina. Um 180 eggjabúum hefur verið lokað þar tímabundið vegna rannsóknar á menguninni.

Þýska verslanakeðjan Aldi fjarlægði öll egg úr verslunum sínum í Þýskalandi í síðustu viku vegna hneykslisins. Einnig hafa verslanir í Belgíu og Hollandi gripið til sömu ráðstafana.

Embættismenn í Belgíu hafa viðurkennt að þeir hafi vitað af menguninni í eggjum frá hollenskum búum þegar í júní.

Fipronil er notað til að drepa mítla og lýs á hænum en ekki er mælt með notkun efnisins á hænur fyrir matvælaframleiðslu vegna eituráhrifa þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×