Erlent

Hætta að sýna „of kynæsandi“ landkynningu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá Mitsu Dan og hrísgrjónakallinn svífa um á baki skjaldbaka.
Hér má sjá Mitsu Dan og hrísgrjónakallinn svífa um á baki skjaldbaka. SKjáskot
Yfirvöld í Miyagi-héraðinu í Japan hafa tekið umdeilda auglýsingu úr birtingu eftir að hafa borist næstum 400 kvartanir. Mörgum þótti hún gera lítið úr konum, öðrum þótti hún einfaldlega of kynæsandi. Auglýsingin var liður í markaðssetningu héraðsins sem ferðamannastaðar en héraðið er um 300 kílómetrum norður af höfuðborg Japans, Tókíó.

Auglýsingin er rúmlega 2 og hálf mínúta að lengd og í henni má sjá leikkonuna Mitsu Dan, íklædda kímónó, strjúka höfði einhvers konar hrísgrjónaveru og fljúga á baki skjaldböku um héraðið.

Það sem fór hvað helst fyrir brjóstið á siðvöndum Japönum er tvíræðnin sem er alltumlykjandi í myndbandinu. Þannig segir leikkonan á einum stað í myndbandinu við hrísgrjónaveruna „Miyagi, I-cha-u?“ sem þýða mætti sem „Förum til Miyagi.“ Orðið „ichau“ er þó líka hægt að þýða sem „sáðlát.“

Þá spyr hún skjaldbökuna „hvort hún megi fara ofan á hana,“ sem einhverra hluta vegna þótti fara yfir strikið. Skjaldbakan fer mjög hjá sér við spurninguna, hún roðnar og höfuð hennar stækkar. Á japönsku þýðir orðið „kamegashira“ bæði skjaldbökuhöfuð og reðurhúfa.

Þrátt fyrir að yfivöld í héraðinu segist sannfærð um að auglýsingin hafi laðað að fleiri ferðamenn hafa þau nú ákveðið að taka auglýsinguna úr almennri birtingu.

Þeim höfðu borist um 400 kvartanir á þeim mánuði sem auglýsingin var til sýningar en hana má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×