Erlent

Sifjaspell setti deiliskipulagið í uppnám

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Systkinin Jaime og Cersei Lannister eiga í nánari sambandi en skipulagsfulltrúar geta sætt sig við.
Systkinin Jaime og Cersei Lannister eiga í nánari sambandi en skipulagsfulltrúar geta sætt sig við. HBO
Hér að neðan má finna í það minnsta tvo spennuspilla úr GOT. Lesendur sem ekki hafa séð einn einasta þátt, en hafa hugsanlega áhuga á því, ættu ekki að lesa lengra.



Hinn óútreiknanlegi söguþráður Game of Thrones hefur valdið skipulagsfulltrúum í borginni Geelong í Ástralíu töluverðu hugarangri eftir að ákveðið var að nefna götur nýs hverfis eftir persónum og stöðum í þessum geysivinsælu þáttum.

Upphaflega hafði staðið til að ein gatan fengi nafnið Lannaster Road en það var blásið af á seinni stigum. Það þótti ekki við hæfi að bendla götuna við sifjaspellið sem systkinin Cersei og Jamie Lannister stunda í þáttunum.

Bæjarverkfræðingurinn segir í samtali við Guardian að sambandið þeirra hafi einfaldlega þótt of eldfimt. „Ég breytti meira að segja stafsetningunni svo þetta yrði ekki jafn augljóst.“

Lannaster Road fær þess í stað nafnið Precinct Road. Aðrar götur í hverfinu munu þó heita nöfnum úr Game of Thrones-ævintýraheiminum. Þar verður meðal annars að finna göturnar Stannis, Winerfell, Greyjoy, Balish og Tywin - sem er faðir þeirra Cersei og Jamie.

Stærstu mistökin sem gerð voru við hönnun hverfisins segir bæjarverkfræðingurinn hafi verið að hafa Snow-götuna ekki stærri. Vinsældir Jon Snow í þáttunum virðast hafa smitað út frá sér því eftirspurnin eftir húsum við hina stuttu Snow-götu er margfalt meiri en framboðið.

„Við héldum að Jon Snow myndi deyja en svo lifnaði hann bara aftur til lífsins í næstu þáttaröð. Hann er uppáhald allra, við hefðum átt að gefa honum breiðgötu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×