Lífið

Mamma fríkaði út

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Svanhildur Helga Berg og dóttir hennar Camilla Von Gunnarsdóttir, sem verður eins árs á aðfangadag. "Ég held að það sé vel hægt að gera gaman úr því að eiga afmæli á jólunum en verra að fá alltaf jólaskraut í afmælisgjöf,“ segir Svanhildur sem hélt afmælisveislu Camillu viku fyrir jól.
Svanhildur Helga Berg og dóttir hennar Camilla Von Gunnarsdóttir, sem verður eins árs á aðfangadag. "Ég held að það sé vel hægt að gera gaman úr því að eiga afmæli á jólunum en verra að fá alltaf jólaskraut í afmælisgjöf,“ segir Svanhildur sem hélt afmælisveislu Camillu viku fyrir jól. MYND/ANTON BRINK
Barn eignaðist barn á aðfangadagskvöld í fyrra. Hin unga móðir, Svanhildur Helga Berg, segir barnið vera blessun og hafa fyllt sig lífsgleði. Móðurhlutverkið sé dásamlegt.„Camilla hefur sýnt mér hvað lífið er yndislegt. Ég var svolítið þunglynd á tímabili en hef aldrei í lífinu verið hamingjusamari,“ segir Svanhildur Helga Berg, sem eignaðist dótturina Camillu Von á aðfangadagskvöld í fyrra, þá sextán ára gömul.„Það er dásamlegt að eignast barn. Camilla fyllti mig orku og sannri lífsgleði og hún hefur gefið mér svo mikið á þann hátt að ég er nú miklu duglegri við allt sem ég geri, hvort sem það er skólinn, vinnan eða móðurhlutverkið.“ 

„Mín uppáhaldsjólahefð er að skreyta jólatréð á Þorláksmessu þar sem allir hjálpast að og skiptast á að setja stjörnuna á tréð. Hún er komin frá mömmu og í þá hefð mun ég halda fyrir Camillu,“ segir Svanhildur.MYND/ANTON BRINK
Vildi slá á kjaftasögurnar

Svanhildur var í 10. bekk þegar hún komst að raun um að hún væri barnshafandi.„Þá gengu kjaftasögur um að ég væri ólétt en til að leiðrétta þann misskilning fyrir þáverandi kærasta og vinum ákvað ég að taka þungunarpróf. Mér hafði að vísu verið flökurt og illt í maganum en renndi ekki í grun að ég væri með barni og varð mjög hissa þegar sannleikurinn kom í ljós. Mamma fríkaði náttúrlega út en ég fríkaði ekki neitt út. Ég varð strax ákveðin í að eignast barnið og fóstureyðing hvarflaði ekki að mér. Það var ekkert fyrir mig.“Settur fæðingardagur var 3. janúar 2017 en jólabarnið Camilla vildi í heiminn á aðfangadag.„Þorláksmessa gekk sinn vanagang. Við mamma heimsóttum bræður mína en einn þeirra býr á Akranesi. Þar fór ég að finna fyrir verkjum en tók ekki mark á þeim því ég hafði verið með fyrirvaraverki frá 27. viku,“ útskýrir Svanhildur.Á Þorláksmessukvöld var jólatréð skreytt. Á eftir ákváðu mæðgurnar að horfa saman á bíómynd en þegar gengið var til hvílu um nóttina höfðu verkirnir aukist hjá Svanhildi.„Klukkan átta á aðfangadagsmorgni voru hríðaverkirnir orðnir stöðugir svo ég vakti mömmu sem bað mig nú að hætta þessu væli og halda áfram að sofa, enda átti barnið ekkert að koma fyrr en eftir jól. Ég sagði henni að það væri enginn vafi, barnið væri að koma. Mamma hringdi þá í ljósmóður sem spurði hvað ég væri gömul og komin langt á leið, og svaraði því svo til að svo ungar stelpur gengju alltaf fram yfir settan tíma og því væri best fyrir mig að fara bara í bað,“ segir Svanhildur sem fór í heitt bað en allt kom fyrr ekki.„Í baðinu fékk ég svakalega hríðaverki og kallaði á mömmu sem tók mig úr baðinu. Ég klæddi mig í flýti og setti ofan í tösku, en þá þurfti mamma að fara í sturtu, blása á sér hárið, mála sig og setja á sig eyrnalokka, því maður á jú að vera fínn á jólunum,“ segir Svanhildur og hlær að minningunni, enda trúði því enginn að Camilla væri að koma í heiminn á þessum helga jóladegi.„Ég var hins vegar sannfærð, þótt enginn annar tryði mér. Á endan­um drifum við okkur á fæðingardeildina en ljósmóðurinni sem tók á móti okkur þótti ólíklegt að ég væri komin með hríðir þar sem ég leit ekki út fyrir að þjást. En svo skoðaði hún mig og ég var komin með sjö í útvíkkun! Mamma táraðist og ég var drifin í bað til að lina verkina og undi mér þar næstu tímana með glaðloft og mandarínur,“ segir Svanhildur sem afþakkaði öll verkjastillandi lyf í fæðingunni. „Ég hafði nefnilega gert þau mistök að horfa á myndband um mænurótardeyfingu á ljósmóðir.is og það hræddi mig.“

Svanhildur varð fyrst og fremst undrandi á sköpunarverkinu þegar hún fékk Camillu í fangið í fyrsta sinn á fæðingardeildinni. Þarna er Camilla nýfædd.MYND/AÐSEND
Stærsti jólapakki lífsins

Klukkan fjögur á aðfangadag lagðist Svanhildur á sængina og klukkan 24 mínútur yfir fimm fæddist Camilla Von, rúmum hálftíma áður en kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin.„Fæðingin gekk eins og í sögu og Camilla kom í heiminn heilbrigð og yndisleg. Mamma og Sólveig, kona pabba, voru viðstaddar fæðinguna. Allt við þennan dag var sérstakt og ég skynjaði vel þann milda jólafrið sem lá í loftinu. Ég var fullkomlega róleg og vissi kynið en var þó allan tímann efins og viss um að þetta yrði strákur því sónarinn er ekki óskeikull.“Jólamaturinn á fæðingardeildinni var búinn þegar fæðingin var afstaðin en Svanhildi voru færðar smákökur og brauð.„Reyndar voru smákökurnar verulega góðar og ég sendi mömmu margar ferðir eftir þeim um kvöldið. Sólveig bjargaði svo jólamatnum sem hún sendi pabba með handa okkur mömmu á fæðingardeildina og pakka svo unglingurinn ég færi ekki alveg á mis við aðfangadagskvöld. Þó hafði ég opnað þann stærsta í lífinu, sem var Camilla,“ segir Svanhildur, en á jóladag fóru mæðgurnar heim og héldu heilög jól.

Camilla Von er einstaklega skýr og dugleg stúlka, var farin að ganga níu mánaða, er komin með þó nokkurn orðaforða og er farin að hlaupa og dansa um allt.MYND/ANTON BRINK
Gaman að vera mamma

Til er mynd af Svanhildi haldandi á Camillu í fyrsta sinn. Úr andliti hennar skín undrun.„Maður sér oft myndir af nýbökuðum mæðrum sem gráta af gleði og geðshræringu en ég hugsaði bara með mér: Hvernig gerðist þetta eiginlega? Hvernig gat ég búið til heila manneskju? Þetta var mikið að meðtaka,“ segir Svanhildur.Henni þykir táknrænt að Camilla hafi fæðst á fæðingardegi frelsarans.„Ég var ekkert sérstaklega trúuð en eftir að ég eignaðist Camillu breyttist viðhorf mitt. Ég get ekki skilið hvernig venjuleg sextán ára stelpa gat búið til lifandi manneskju með sál, tilfinningar og persónuleika. Það hlýtur að vera eitthvað til sem er æðra manninum en það er erfitt að útskýra.“Camilla er jólabarn með rentu og yfir sig heilluð af jólaskrautinu og jólaljósunum.„Ég elska að sjá hana dansa og segja nýja hluti. Mér finnst rosalega gaman að vera mamma og það hefur gengið vel þótt það geti líka verið erfitt á stundum. Það kostar andvökunætur eins og nú í tanntökunni, en maður gleymir því strax þegar hún er hress og vakandi.“Camilla var farin að ganga níu mánaða og hleypur nú um allt, rétt að verða ársgömul.„Camilla er eins og þriggja ára barn og klifrar upp á allt. Hún kann orðið meira en tuttugu orð, er skynsöm og purrar á mig ef ég geri eitthvað rangt, og er einstaklega dugleg og klár stelpa,“ segir Svanhildur og það leynir sér ekki að hún er stolt móðir.

Best við móðurhlutverkið segir Svanhildur vera að kenna litlu stúlkunni sinni að verða góð og kurteis manneskja.MYND/ANTON BRINK
Vill sjálf sjá um uppeldið

Svanhildur og Camilla búa til skiptis hjá móður Svanhildar í Efra-Breiðholti og föður hennar í Mosfellsbæ.„Ég tók strax ákvörðun um að ala Camillu upp alveg sjálf og vera móðir hennar frá fyrsta degi. En auðvitað er gott að hafa mömmu, pabba og Sólveigu fósturmömmu mína nærri. Ég hlusta auðvitað á mömmu og leita stundum ráða, eins og þegar Camilla fæddist og fyrsti kúkurinn var svartur og ég hélt að eitthvað væri að barninu,“ segir Svanhildur brosmild.Hún segist ekki beint mæla með unglingaþungun en þó sé hún ekki óyfirstíganleg.„Þegar unglingsstúlkur verða óléttar finnst mér að þær ættu að hugsa út í möguleikana því þetta er vel hægt. Barn er alltaf blessun og það er yndislegt að eignast barn. Það kom mér á óvart hvað móðurhlutverkið er gefandi og skemmtilegt, þótt auðvitað sé einstaklingsbundið hvort stelpur séu tilbúnar í það á þessum aldri.“Svanhildur er fljót til svars þegar hún er spurð um hvað sé best við móðurhlutverkið.„Það besta við að vera mamma er að kenna Camillu að vera góð, umburðarlynd og kurteis. Ég vil ala hana upp til að verða góð manneskja sem sýnir af sér náungakærleik og dreifir ást til allra.“

Svanhildur ákvað strax að sjá sjálf um uppeldi dóttur sinnar. Hún er trúlofuð Húsvíkingnum Gunnari Má.AÐSEND MYND
Trú, von og kærleikur

Nafnið Camilla er tignarlegt og fagurt í huga Svanhildar, og móðir hennar, Þórdís Una Gunnarsdóttir, átti uppástunguna um Von sem millinafn.„Mér fannst Von passa Camillu vel, ekki síst vegna trúar, vonar og kærleika og þess að hún fæddist á aðfangadegi jóla. Það tók líka mikla trú, von og kærleika á meðgöngunni að eignast hana. Meðgangan var einstaklega erfið, allt frá annarri að 30. viku. Þá ældi ég galli dagana langa og var með mikla magaverki og oft háan hita. Ég fór nokkrum sinnum á Barnaspítalann í blóðprufur en það fannst aldrei skýring á hitanum né verkjunum,“ segir Svanhildur sem var einnig nokkuð buguð stóran hluta meðgöngunnar.„Ég bugaðist vegna þess að mig langaði að vera með vinum mínum úti í sumrinu en sökum þess hve ég ældi mikið, var þreytt og léttist frekar en hitt varð ég hrædd um Camillu, lokaði mig af og hélt mig mikið inni.“Svanhildur stundar nú nám á sjúkraliðabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti en hún hefur engan áhuga á djammlífi framhaldsskólaáranna.„Ég hef enga þörf fyrir að hlaupa af mér hornin. Eftir að ég eignaðist Camillu varð ég miklu ákveðnari í hvað ég vil gera og vera. Ég ætla til dæmis aldrei að reykja eða drekka. Ég vil einbeita mér að náminu og fæ nú miklu betri einkunnir en ég gerði í grunnskóla þegar mér var meira sama og vildi heldur hafa það skemmtilegt með vinunum. Nú veit ég hvað ég þarf að gera til að eignast draumalífið; heimili, bíl og fjárhagslegt öryggi.“Svanhildur er trúlofuð Gunnari Má Vilhjálmssyni, ungum Húsvíkingi í pípulagningarnámi. Hún hlakkar til frekari barneigna í framtíðinni en draumur hennar er að verða hjúkrunarfræðingur eða lögreglukona.„Mig langar til að starfa sem hjúkrunarfræðingur og sinna gamla fólkinu eða verða lögreglukona sem veitir hjálp þar sem á þarf að halda.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.