Skoðun

Eins og klóakrennsli frá 1,1 milljón manns

Ingólfur Ásgeirsson skrifar
Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi fiskeldisstöðva má reikna með að frá hverju tonni í laxeldi komi skólp sem er á við „klóakrennsli frá 8 manns“. Til að setja þessa tölu í samhengi þá væri „klóakrennsli“ frá 30.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi á við 240.000 manna byggð. Hver vill fá slíkan ófögnuð við bæjardyrnar hjá sér?

Nýlega bárust fréttir af því að Arnarlax verður að færa til kvíar sínar í Patreksfirði vegna mengunar sem stafar frá þeim. Fyrirtækið hafði hugsað sér að fá alþjóðlega votttun fyrir ábyrgu og sjálfbæru fiskeldi í sjó en uppfyllti ekki nauðsynleg skilyrði. Við botnsýnatöku Náttúrustofu Vestfjarða við Hlaðseyri í Patreksfirði kom í ljós mikil uppsöfnun úrgangs við kvíarnar. Það sem er verra er að þessi úrgangur virðist fara með sjávarstraumum inn fjörðinn en ekki út til hafs. Að öllu óbreyttu mun því úrgangurinn safnast saman innar í firðinum og valda enn meiri mengun þar.

Þessi mengun er þegar farin að hafa alvarleg áhrif á lífríki við Patreksfjörð eins og kemur fram í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða: „Þegar botndýrasamfélög í þessari athugun eru borin saman við þau sem fundust við athuganir sem gerðar voru áður en fiskeldi byrjaði sést að margar tegundir finnast ekki lengur á fiskeldissvæðinu.“

Furðu lítið hefur farið fyrir umræðum um að fiskeldi í opnum sjókvíum er verulega mengandi iðnaður. Við skulum hafa í huga að ofangreindar tölur Landssambands fiskeldisstöðva um „klóakrennsli frá 8 manns“ eru mjög varfærnar. Alþjóðleg umhverfissamtök vísa til rannsókna sem sýna að skólpið frá hverju tonni samsvarar frárennsli 9 til 20 manns. Þó ekki sé farið hærra en í 16 manns á þeim skala þá yrði skólpmengunin frá 71 þúsund tonna eldi – eins og Hafrannsóknastofnun telur rétt að leyfa – á við það sem rennur til sjávar frá rúmlega 1,1 milljón manns. Það er hrollvekjandi framtíðarsýn.

 

Höfundur er flugstjóri og einn af stofnendum The Icelandic Wildlife Fund.
Skoðun

Skoðun

Creditinfo

Daníel Freyr Rögnvaldsson skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.