Skoðun

Sérstaða Íslands í alþjóðasamhengi

Rakel Halldórsdóttir og Páll Gunnar Pálsson og Sveinn Margeirsson skrifa
Ísland hefur mikla sérstöðu í alþjóðaumhverfinu þegar kemur að möguleikum til sjálfbærni. Þessi sérstaða byggir á nokkrum þáttum, ekki síst á þeirri staðreynd að Ísland er eyja, með ríkulegar auðlindir til lands og sjávar sem er tært og ósnortið að miklu leyti sökum hnattstöðu landsins og landfræðilegrar uppbyggingar þess. Vaxandi fólksfjöldi, hungur og matar­sóun eru meðal stóru málanna á alþjóðavísu þegar litið er til framtíðar.

Almennt er talið að á alþjóðavísu komi um 5% matar og fóðurs úr sjó og vatni, á meðan staðreyndin er sú að höf og vötn umlykja í kringum 70% af jörðinni. Á Íslandi höfum við þá sérstöðu að í kringum 80-90% af matarframleiðslu okkar koma úr sjó og vatni (breytilegt milli ára). Nýsköpun í tengslum við sjávargróður, svo sem þörungarækt til manneldis, verður ekki til annars en hækkunar á þessu háa hlutfalli. Þetta er sérstaða sem ber að horfa til með tilliti til langtímastefnumótunar.

Í erindi Heiðrúnar Lindar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á ársfundi samtakanna þann 28. maí sl., lýsti hún sérstöðu Íslands hvað varðar sjávarútveg okkar sem sjálfbæra auðlind. Sagði hún þessa sérstöðu byggja á 1) umhverfislegri sjálfbærni, grundvallaðri á kvótakerfi sem tryggir viðhald og framtíð íslensku sjávarauðlindarinnar, 2) efnahagslegri sjálfbærni, sem grundvallast á fyrirsjáanlegu og stöðugu lagaumhverfi og 3) samfélagslegri sjálfbærni, sem grundvallast á þeim miklu framförum sem orðið hafa í veiðum og vinnslu í þessum grunnatvinnuvegi Íslendinga og stuðla að betri nýtingu auðlindarinnar, minnkuðu kolefnisspori og aukinni sjálfbærni.

Allar frumframleiðslugreinar Íslands, hvort sem þær nýta auðlindir lands eða sjávar og vatna, eru mikilvægar þegar kemur að sjálfbærni Íslands og langtímastefnumótun og -hugsun sem tryggir viðhald og uppbyggingu þeirra er lykilatriði til framtíðar sjálfbærs Íslands og sjálfbærrar jarðar. Þegar horft er til möguleika Íslands á að leggja sitt af mörkum til sjálfbærni jarðar, er þó mikilvægt að horfa ekki síst til íslenska sjávarútvegsins og sérstöðu hans hnattrænt.

Með tilliti til möguleika Íslands á að leggja sitt af mörkum til manneldis og velferðar jarðarbúa almennt, mætti því ætla að opinber stefnumótun sem tryggir möguleika sjávarútvegsins á langtímasamningum erlendis sé afar mikilvæg, en grundvöllur slíkrar stefnumótunar hlýtur að vera sá að stöðugleiki hins íslenska gjaldmiðils verði tryggður. Sífelldar sveiflur íslensku krónunnar og óútreiknanlegar aðstæður hljóta að vera hindranir sem erfitt og jafnvel ómögulegt er að yfirstíga í langtímastefnumótun og langtímasamningum frumframleiðenda og annarra framleiðenda og fyrirtækja á sölu íslenskra afurða erlendis, þar með talið sjávarafurða.

Sjálfbært Ísland?

Samfélagsleg sjálfbærni Íslands er í vexti, með framförum og verkefnum í átt að sjálfbærari aðferðum. Umhverfisleg sjálfbærni Íslands er í vexti, með aðstæðum innanlands sem hvetja til aukinnar virðingar og verndar í umgengni við náttúruna og auðlindir hennar. Efnahagsleg sjálfbærni Íslands er í vexti, með meðvitund ráðamanna og vilja til að innleiða og tryggja möguleika innanlands til umhverfisverndar og eðlilegrar nýtingar og viðhalds auðlinda. Hvað sjálfbærni Íslands til framtíðar varðar er áríðandi að hugað sé alvarlega að mögulegum áhrifum stóriðju, virkjana og orkuvera á vistkerfi náttúrunnar og þar með auðlindir og frumframleiðslu. Í því samhengi er brýnt að langtímasjónarmið ráði ferð.

Með tilliti til möguleika Íslands á að leggja sitt af mörkum í átt að sjálfbærari jörð, nægir efnahagsleg sjálfbærni innanlands ekki ein.

Mikilvægt er að tryggja efnahagslega sjálfbærni Íslands einnig á alþjóðavísu, með því að skapa frumframleiðendum fyrirsjáanlegt og stöðugt umhverfi til langtímastefnumótunar og samningagerðar. Mikilvægt er að finna leiðir til að lækka kostnað og skapa aðstæður sem veita frumframleiðendum í öllum greinum sanngjarnt verð fyrir framleiðslu sína og þar með traustan rekstrargrundvöll.

Mikilvægt er að sjónarmið lykilhugtakanna virðingar og verndar verði í auknum mæli ráðandi í viðhorfum okkar til auðlinda jarðar, frumframleiðslu og alls lífs, því: Matur er mannsins megin, matur og næring er lífið sjálft, frumframleiðsla snýst um líf mannkyns og viðhald þess á móður jörðu.

Rakel Halldórsdóttir er annar stofnenda Frú Laugu bændamarkaðar, stjórnarmaður SLOW FOOD Reykjavík og ráðgjafi hjá Matís.

Páll Gunnar Pálsson er sérfræðingur hjá Matís.

Sveinn Margeirsson er forstjóri Matís.



Greinin er þriðji hluti greinaraðarinnar Sjálfbært Ísland – sjálfbær jörð.


Tengdar fréttir

Sjálfbærni og fjölskyldan

Sjálfbærni er hugtak sem er mikið í umræðunni um þessar mundir. Hugtakið sjálfbærni og sú hugsun sem það felur í sér er fremur nýtt af nálinni sem meðvituð skilgreining og markmið, þó samfélög hafi í raun framan af og ef til vill allt til iðnvæðingar fylgt þeirri hugsun sem eðlilegum, náttúrulegum og sjálfsögðum grunni samfélags.




Skoðun

Sjá meira


×