Skoðun

Þolinmæði gagnvart kerfisbreytingum

Bolli Héðinsson skrifar
Björt framtíð reis úr öskustónni fyrir kosningarnar 2016 með því að greiða einn flokka atkvæði gegn búvörusamningnum og sýna þannig fram á að hún væri flokkur kerfisbreytinga. Flokkurinn fór svo í ríkisstjórn án þess að ná fram kerfisbreytingum. Á meðan á ríkisstjórnarsamstarfinu stóð lágu forráðamenn Bjartrar framtíðar undir stöðugu ámæli fyrir að hafa farið í ríkisstjórn upp á þessi býti. Samfélagsmiðlar voru dag eftir dag uppfullir af ásökunum, dylgjum og oft á tíðum yfirgengilegri illmælgi í garð forystu Bjartrar framtíðar.

Lærdómurinn af þessu hlýtur að vera sá að fyrir flokka eins og Samfylkinguna, Viðreisn og Pírata sem allir hafa boðað kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði, auk nýrrar stjórnarskrár, þá verða þessir flokkar að ná áþreifanlegum árangri í ríkisstjórnarsamstarfi strax svo þeir megi forðast það að lenda í því sama og Björt framtíð. Þolinmæði kjósenda fyrir sýnilegum árangri af stjórnarsamstarfi er ekki mæld í árum heldur fáeinum mánuðum.

Útboð aflaheimilda – stjórnarskrá – landbúnaður

Þannig geta Píratar ekki vænst friðhelgi frá kjósendum sínum ef ekki verður búið að skipa hóp til að beinlínis ganga frá nýrri stjórnarskrá í annarri eða þriðju viku eftir myndun ríkisstjórnar sem þeir eiga aðild að. Aukinn innflutningur landbúnaðarvara og dregið úr miðstýringu í mjólkur- og kjötframleiðslu yrði að sjást innan örfárra mánaða hjá Viðreisn og Samfylking yrði að tryggja að útboð veiðiheimilda vegna veiða á makríl fari fram ekki seinna en fyrir páska.

Það er liðinn sá tími að nægi að segja kjósendum að málin séu komin í nefnd eða farveg og svo líður og bíður, ekkert gerist og fyrr en varir er komið að lokum kjörtímabils. Þessi vinnubrögð eru einfaldlega ekki lengur í boði. Almenningur sættir sig ekki við að slíkt sé viðhaft um mál sem þegar hafa verið rædd í þaula og vitað er hverjir eru og verða alltaf á móti og hverjir eru með. Þetta gildir a.m.k. um útboð aflaheimilda og nýja stjórnarskrá.

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×