Innlent

Kosningabaráttunni lokið og valdið komið til fólksins

Heimir Már Pétursson skrifar
Umboð þeirra sextíu og þriggja karla og kvenna sem nú sitja á þingi rennur út á miðnætti. En eftir um sólarhring hafa kjósendur lokið við að skipa upp á nýtt til sætis á löggjafarsamkomunni.  Búast má við betri kjörsókn en í fyrra miðað við hvað margir eru búnir að kjósa utankjörfundar.

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna sögðu í kosningaþætti Stöðvar 2 í gærkvöldi að hugmyndafræði skipti enn máli í íslenskum stjórnmálum.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra gæti haldið embættinu að loknum kosningum, þótt vinstristjórn sé líklegri niðurstaða.

„Við höfum ávalt verið flokkur sem leggur upp úr trú á einstaklinginn. Trú á framtíð landsins. Frelsi einstaklingsins og það birtist í skattastefnunni okkar til dæmis. Að það skipti sköpum fyrir framtíðar verðmætasköpun í landinu að stjórnvöld hagi lögum og reglum með þeim hætti að fólk finni að það hafi stuðning af stjórnvöldum,“ sagði Bjarni.

Helsti keppinautur Bjarna um forsætisráðherrastólinn er Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna en Bjarni hefur gagnrýnt flokk hennar fyrir að vilja auka útgjöld og hækka skatta.

„Þetta snýst ekkert bara um aukin útgjöld. Þetta snýst um það hvort við ætlum að forgangsraða til að mynda í þágu hins opinbera heilbrigðiskerfis. Ætlum við að forgangsraða í þágu þess að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga sem er enn allt of mikil því miður. Ætlum við að forgangsraða í þágu þess að efla hér menntun. Til að við getum fært þetta samfélag meira yfir í þekkingardrifið samfélag. Sem byggist á hugviti, byggist á nýsköpun. Sem byggist á verðmætaaukningu í öllum greinum,“ sagði Katrín.

Hástökkvari jafnaðarstefnunnar og samvinnuhugsjónin

Samfylkingin gæti orðið ein af hástökkvurum kosninganna miðað við kannanir. Logi Einarsson formaður flokksins segir hugmyndafræði hans byggja á klassískum hugsjónum jafnaðarstefnunnar.

„Það er að teiknast upp býsna skýr mynd á milli flokkanna í þessari kosningabaráttu. Frá því að byggja áfram á hægristefnu misskiptingar, stefnu sem hræðist þjónina yfir í stefnu sem gerir ráð fyrir að við dreifum gæðunum jafnar. Komum hér á félagslegum stöðugleika. En jafnframt því köllum þjóðina betur að borðinu. Leyfum henni til dæmis að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Leyfum henni að hafa meira með það að gera  hvernig við formum og klárum nýja stjórnarskrá,“ sagði Logi.

Framsóknarflokkurinn klofnaði rétt fyrir kosningar en Lilja Alfreðsdóttir oddviti flokksins segir samvinnuhugsjónina enn í fullu gildi.

„Við viljum engar öfgar. Hvorki til vinstri eða hægri. Það sem við viljum er öflugt velferðarkerfi og öflugt atvinnulíf. Þess vegna er ég svolítið hissa að heyra forsætisráðherra tala um að hann vilji skattalækkanir þegar ríkisfjármálaáætlunin hans býður upp á að við séum að hækka skatta á ferðaþjónustuna. Við höfnum því. Við viljum byggja hér upp öflugt atvinnulíf. Stöðugt umhverfi í kring um fyrirtækin í landinu og annað sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli er að forgangsröðun í íslensku samfélagi verði rétt,“ sagði Lilja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra segir samvinnuhugsjónina einnig geta rúmast innan Miðflokksins sem hann stofnaði skömmu fyrir kosningar.

„Það er áherslumunur hjá Katrínu og Bjarna varðandi skattheimtu og sumir hérna vilja ganga í Evrópusambandið. Um hvað snýst það? Það snýst um að afsala sér ennþá meira valdi og þegar stjórnmálamenn eru að afsala sér valdi eru þeir að afsala almenningi valdi. Þá hættir lýðræðið að virka.  Nálgun okkar er sú að leita bestu lausnanna. Sama hvaðan þær koma. Hvort sem þær eru að koma frá vinstri eða hægri eða einhvers staðar annars staðar að. Finna bestu leiðirnar en vera svo reiðubúnir til að berjast fyrir því að innleiða þær leiðir,“ sagði Sigmundur Davíð.

Mikið um yfirtromp í loforðum og minna um hugmyndafræði

Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra er að öllum líkindum á leið út af þingi miðað við kannanir.

„Mér finnst hugmyndafræðina dálítið vanta í þessa kosningabaráttu. Sem hefur svolítið gengið út á að trompa fram með stór loforð. Útgjaldaloforð, taka peninga út úr bönkum. Jafnvel gefa peninga út úr bönkum. Manni finnst þetta dálítið óþægileg tilhugsun. Þetta minnir á kosningarnar 2003 þegar að flokkarnir einhvern veginn yfirbuðu hver annan. Við vissum nú alveg hvað gerðist síðan í framhaldinu á því þegar allt fór einhver veginn í bál og brand,“ sagði Óttarr.

Viðreisn skipti um formann skömmu fyrir kosningar þegar fylgið var komið niður í kjalara og við formannsembættinu tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Hugmyndafræði Viðreisnar er einfaldlega að auka samkeppnishæfni. Þora að tala og vera með kjarkinn til að tala fyrir breytingum. Það er ekkert sexý mál. Það er ekki sjamerandi mál að tala um að tengja krónuna við annan gjaldmiðil eða skipta henni út. En þetta er lykilmál fyrir lífskjör fjölskyldna og atvinnulífs í landinu. Þannig að við getum haldið áfram að sækja fram hvar; jú innan velferðarkerfisins. Bæta heilbrigðiskerfið, bæta menntakerfið. Og innan menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins þurfum við að tryggja jafnan rétt allra,“ sagði Þorgerður Katrín.

Jón Þór Ólafsson oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi segir hugmyndafræði Pírata byggja á því að hlusta á fólkið í landinu.

„Við viljum fá að vera með“

„Auðvitað verður pólitískur óstöðugleiki í landinu þegar sú stefna sem stjórnvöld taka alltaf er ekki að endurspeglast í vilja langflestra landsmanna. Hún er að endurspeglast í vilja flestra kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Það er verið að greiða niður skuldir og á fjárlögunum ykkar (við Bjarna Benediktsson) eru 44 milljarðar sem stóðu eftir sem gætu þá nýst á meðan heilbrigðiskerfið, sjúkrahúsin, heilsugæslan, skólarnir, aldraðir og öryrkjar sátu eftir. Það er bara satt Bjarni.,“ sagði Jón Þór og Bjarni sagaði nei.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins, sem ekki er að fá fulltrúa á þing miðað við síðustu kannanir, segist vilja komast í stærsta ræðustól þjóðarinnar.

„Við viljum bara að allir fái að taka þátt í þessari velmegun. Ekki bara fáir útvaldir auðkýfingar eða þiggja mylsnuna sem fellur af einhverjum auðmannsborðum. Við viljum fá að taka þátt í samfélaginu. Hvort sem við heitum almenningur í landinu, hvort við erum öryrkjar eða eldri borgarar. Við viljum bara fá að vera með,“ sagði Inga Sædal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×