Körfubolti

Jón Arnór fór líka í speglun á hné | Spilar ekki fyrir áramót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Anton
Jón Arnór Stefánsson mun annað tímabilið í röð ekkert spila með KR-liðinu í Domino´s deildinni fyrir áramót.

Jón Arnór meiddist á nára í Meistarakeppni KKÍ en hafði áður verið að glíma við nárameiðsli í aðdraganda Eurobasket mótsins í haust.

Jón Arnór gat spilað alla leikina úti í Helsinki en meiddist í þriðja leik með KR en hann hafði áður spilað mjög vel með KR í Evrópukeppninni.

Það var ljóst að Jón Arnór yrði frá í einhvern tíma og vitandi það að nárameiðslin myndu halda honum frá keppni og æfingum næstu mánuði þá ákvað Jón Arnór að slá tvær flugur í einu höggi.

Jón Arnór staðfesti í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 Sport að hann hafi einnig farið í speglun á hné.

Jón Arnór missti af fyrri hluta síðasta tímabils vegna hnémeiðsla. Hann endurtekur leikinn núna en í fyrra kom hann mjög sterkur inn eftir  áramót og hjálpaði KR-liðinu að vinna tvöfalt auk þess að vera kosinn besti leikmaður bikarúrslitaleiksins, besti leikmaður lokaúrslitanna og besti leikmaður tímabilsins.

„Ég er að bæta fjórum árum við ferilinn með því að fara í þessa speglun,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í viðtali við Svala Björgvinsson í hálfleik á sjónvarpsútsendingu Stöð 2 Sport frá leik Stjörnunnar og KR í Domino´s deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×