Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Gregg Popovich, þjálfari NBA-liðsins San Antonio Spurs, hatar Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Popovich hefur margoft tjáð sig um það hversu vanhæfur og ömurlegur Trump sé í sínum augum.
Þjálfarinn brjálaðist svo endanlega er hann sá að Trump hélt því að margir fyrrum forsetar hefðu ekki hringt í fjölskyldur fallinna hermanna. Popovich er sjálfur fyrrum hermaður.
„Þessi maður í Hvíta húsinu er sálarlaus heigull sem gerir lítið úr öðrum í von um að líta sjálfur betur út. Hann hefur lengi stundað þessa taktík en að gera það á þennan hátt, og ljúga um aðra, er að leggjast eins lágt og mögulegt er,“ sagði Popovich öskureiður.
„Við erum með siðblindan lygara í Hvíta húsinu sem er vanhæfur á öllum sviðum. Það veit allur heimurinn og líka allir sem standa honum næst og vinna með honum á hverjum degi. Fólkið sem vinnur með honum ætti að skammast sín því það veit betur en gerir ekkert í málunum. Skömmin er þeirra.“
