Handbolti

Erlingur tekur við hollenska landsliðinu í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson verður næsti þjálfari hollenska karlalandsliðsins í handbolta.
Erlingur Birgir Richardsson verður næsti þjálfari hollenska karlalandsliðsins í handbolta. Vísir/Getty

Eyjamaðurinn Erlingur Birgir Richardsson hefur gert þriggja ára samning við hollenska handboltasambandið og verður næsti þjálfari karlalandsliðs Hollendinga.

Erlingur er 45 ára gamall og er nýtekinn við sem skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja en hann var þar að leysa Sigurlás Þorleifsson af skólaárið 2017 til 2018.

Erlingur er því enn einn íslenski handboltaþjálfarinn sem fær tækifæri til að þjálfa erlent landslið en eins og er þá eru landslið Japan, Barein, Austurríkis, Noregs (konur) og Svíþjóðar með íslenska landsliðsþjálfara.

Erlingur hefur áður þjálfað félagslið í þremur löndum (Íslandi, Austurríki og Þýskalandi) en hefur ekki þjálfað síðan að hann hætti sem þjálfari Füchse Berlin í desember í fyrra.

Þetta verður fyrsta aðalþjálfarastarf hans með landsliði en hann hefur áður verið aðstoðarmaður hjá íslenska landsliðinu.

Þegar Erlingur hætti með Berlínarrefina var hann á sínu öðru ári með Füchse Berlin eftir að hafa tekið við af Degi Sigurðssyni. Erlingur þjálfaði SG Handball West Wien í tvö ár þar á undan og þá gerði hann karlalið HK að Íslandsmeisturum 2012.

Hollenska karlalandsliðið í handbolta hefur aðeins einu sinni komist á stórmót og það var á HM 1961 eða fyrir 56 árum síðan.

Liðið endaði í 3. sæti í sínum riðli í síðustu undankeppni Evrópumótsins á eftir Danmörku og Ungverjalandi sem komust inn á EM í Króatíu 2018.

Kvennalandslið Hollendinga hefur aftur á móti verið að ná frábærum árangri á stórmótunum síðustu ár og varð í 2. sæti á síðasta EM 2016.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.