Erlent

Stöðvuðu vopnað rán | Myndband

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hamagangurinn var mikill þegar verslunareigendurnir reyndu að ýta öðröm ræningjanna út úr versluninni. Á meðan beindi hinn byssu að þremenningunum.
Hamagangurinn var mikill þegar verslunareigendurnir reyndu að ýta öðröm ræningjanna út úr versluninni. Á meðan beindi hinn byssu að þremenningunum. Skjáskot
Tveir verslunareigendur í bandarísku borginni Arlington í Texasfylki gerðu sér lítið fyrir og lögðu tvo vopnaða ræningja.

Lögreglan í borginni birti upptöku úr öryggismyndavél verslunarinnar, sem sjá má hér að neðan, og óskaði aðstoðar almennings við að bera kennsl á mennina.

Í myndbandinu sést hvernig annar mannanna, vopnaður byssu, stekkur yfir afgreiðsluborðið. Hefst þá mikill hamagangur milli ræningjans og verslunareigendanna og falla allir í eina kös á bakvið afgreiðsluborðið.

Á meðan stendur hinn ræninginn álengdar áður en hann dregur sjálfur upp byssu og miðar að þremenningunum. Annar eigendanna reynir þá að rífa byssuna af honum meðan hinn er í óðaönn við að ýta ræningjanum á bak við búðarborðið út úr versluninni.

Þegar hinn vopnaði sér í hvað stefnir ákveður hann að taka á rás og skilur félaga sinn eftir með verslunareigendunum sem reyna að varna því að hann geti fylgt á eftir.

Þegar eigendunum virðist ætla að takast ætlunarverk sitt kallar ræninginn á félaga sinn sem hleypur til baka og slær í átt að eigendunum. Eftir töluverðan atgang og handalögmál komast báðir ræningjarnir undan.

Lögreglan í Arlington hvetur áhorfendur til að hafa samband við sig þekki þeir mennina. Hún minnir jafnframt á að það sé ekki sniðugt að lenda í handalögmálum við vopnaða ræningja. Myndbandið úr versluninni má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×