Erlent

Skipulögðu tvær hryðjuverkaárásir í Ástralíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í Sydney vegna málsins. Tveir hafa verið ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás.
Frá aðgerðum lögreglu í Sydney vegna málsins. Tveir hafa verið ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás. Vísir/AFP
Tveir menn hafa verið sakaðir um að skipuleggja tvær hryðjuverkaárásir í Ástralíu. Mennirnir voru upphaflega handteknir vegna fyrirætlana sinna um að koma fyrir sprengju í flugvél en nú hefur komið í ljós að þeir reyndu einnig að smíða búnað sem dreifði eitruðu gasi. BBC greinir frá.

Mennirnir eru taldir hafa notið aðstoðar hins svokallaða Íslamska ríkis en þeim mistókst að smygla sprengju um borð í flugvél Etihad-flugfélagsins, sem fljúga átti frá Sydney, þann 15. júlí síðastliðinn. Búnaðurinn sem dreifa átti eitruðu gasi var þó langt frá því að vera tilbúinn.

Khaled Khayat, 49 ára, og Mahmoud Khayat, 32 ára, hafa verið ákærðir fyrir að „undirbúa, eða skipuleggja, hryðjuverkaárás.“ Þeir eiga yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsisvist, verði þeir dæmdir sekir. Tveir til viðbótar voru handteknir í áhlaupum lögreglu í Sydney á laugardag vegna málsins. Öðrum þeirra hefur verið sleppt.

Lögregluyfirvöld segja að um sé að ræða eina vönduðustu og háþróuðustu hryðjuverkatilraun sem gerð hefur verið í Ástralíu. Áætlanir mannanna hafa þó allar orðið að engu í kjölfar aðgerða lögreglu á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×