Erlent

Apple gæti vikið fyrir Huawei

Sæunn Gísladóttir skrifar
Samsung er ennþá stærsti snjallsímaframleiðandi heims.
Samsung er ennþá stærsti snjallsímaframleiðandi heims. Vísir/AFP
Tæknifyrirtækið Apple gæti vikið fyrir kínverska framleiðandanum Huawei sem annar stærsti snjallsímaframleiðandi heims á næstu misserum.

Business Insider greinir frá því að þrátt fyrir að sala á iPhone símum Apple sé stöðug sé sala á snjallsímum Huawei að aukast það hratt að líkur séu á að fyrirtækið verði stærra en Apple á markaði fljótlega. Sala hjá Apple jókst um tvö prósent milli ára á öðrum ársfjórðungi ársins, en sala á snjallsímum Huawai jókst um tuttugu prósent milli ára.

Apple seldi 41 milljón síma, en Huawei 38 milljónir. Bæði fyrirtækin eiga langt í land með að yfirtaka stærsta framleiðanda heims, Samsung. En suður-kóreski snjallsímaframleiðandinn seldi 79 milljónir síma á fjórðungnum.

Samtals voru 340 milljónir snjallsíma framleiddir á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem er um fjögurra prósent aukning milli ára. Í ár eru tíu ár síðan iPhone sími Apple kom fyrst á markað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×