Erlent

Íslandsvinurinn Moore: „Njótið ömurlega lífsins ykkar á eyjunni“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Moore tekur á hinum ýmsu kvillum bandarísks samfélags í myndum sínum.
Michael Moore tekur á hinum ýmsu kvillum bandarísks samfélags í myndum sínum. MYND/GETTY
Hinn umdeildi heimildarmyndargerðarmaður Michael Moore er sannfærður um að ákvörðun Breta um að segja sig úr Evrópusambandinu sé röng. Hann var ekkert að skafa af því í samtali við sjónvarpsstöðins Channel 4 á dögunum: „Njótið ömurlega lífsins ykkar á eyjunni,“ sagði Moore og beindi orðum sínum að Bretum áður en hann bætti við „Þið eruð enn hluti af Evrópu en það er greinilegt að mörg ykkar vilja ekki vera hluti af henni.“

Michael Moore var fenginn í viðtal til að ræða nýjustu kvikmynd kappans, Where to Invade Next eða Hvert skal næst gera innrás. Þar fer hann fögrum orðum um veikindaleyfi Ítala, skólamáltíðir í Frakklandi og kemst að þeirri niðurstöðu að heimurinn væri töluvert betri staður ef konur fengju að ráða ferðinni.

Þá leikur Ísland stóra rullu í myndinni en við tökur hér á landi árið 2015 ræddi Moore meðal annars við Vigdísi Finnbogadóttur, sérstaka saksóknarann Ólaf Þór Hauksson og Hafdísi Jónsdóttur, einnig þekkt sem Dísa í World Class.

Sjá einnig: Þjóðþekktir Íslendingar í nýrri stiklu Michael Moore

Í viðtalinu á Channel 4 sagði Moore að honum, eins og mörgum, hafi ákvörðunin um að kjósa um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu hafa komið sér á óvart en að honum þætti hún samt skiljanleg.

„Þið búið við mikla réttlætanlega reiði, fólk sem áður var í millistétt á nú erfitt með að ná endum saman. Brexit hjá ykkur og Trump í Bandaríkjunum eru eins og Molotov-eldsprengjur sem það kastaði inn í kerfið sem brást því.“

Michael Moore var með þeim fyrstu sem spáði því að Donald Trump myndi bera sigur úr býtum vestanhafs og segir hann að eina leiðin til að halda honum í skefjum sé að rugla hann í ríminu.

„Hann á mjög auðvelt með að tapa þræðinum. Hann er hörundsár og ef við verðum eins og býflugnager í kringum hann næstu árin þá er líklega hægt að koma í veg fyrir eitthvað af þeim óskunda sem hann mun reyna framkvæma.“

Viðtalsbrot við Moore má sjá hér að neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×