Erlent

Fjöldi franskra liðsmanna ISIS snýr aftur til Frakklands

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Talið er að um 700 franskra ríkisborgara hafi gengið til liðs við ISIS samtökin í Írak og Sýrlandi.
Talið er að um 700 franskra ríkisborgara hafi gengið til liðs við ISIS samtökin í Írak og Sýrlandi. Vísir/afp
Um 270 manns hafa snúið aftur til Frakklands eftir að hafa tekið þátt í heilögu stríði í Írak og Sýrlandi. Af þeim eru 54 undir lögaldri. Frönsk yfirvöld rannsaka nú málið og hafa nokkrir verið færðir í varðhald. Reuters greinir frá þessu.

Talið er að um 700 franskra ríkisborgara hafi gengið til liðs við ISIS samtökin í Írak og Sýrlandi og hefur Frakkland, líkt og önnur Evrópulönd verið að glíma við þau vandamál sem því fylgir þegar ríkisborgararnir snúa aftur til síns heima.

Frönsk yfirvöld segja erfitt að segja til um það hversu margir franskir ríkisborgarar hafi látist í átökunum. Frakkland er eitt þeirra ríkja sem tekið hefur þátt í baráttunni gegn Íslamska ríkinu og áhrifum þeirra í Írak ásamt því að hafa staðsett herdeildir í Malí í Vestur-Afríku.

Þá hefur Frakkland einnig verið skotmark árásarmanna Íslamska ríkisins. Í kjölfar árásanna árið 2015 voru neyðarlög sett í landinu og hefur þeim ekki verið aflétt síðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×