Erlent

Sjö ára drengur ók um tveggja kílómetra leið í Ósló

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðhúsið í Ósló.
Ráðhúsið í Ósló. Vísir/Getty
Sjö ára drengur ók bíl foreldra sinna um tveggja kílómetra leið í Ósló fyrr í dag. Lögregla í norsku höfuðborginni greinir frá því að drengurinn hafi komist yfir bíllyklana og ekið bílnum frá Linderud til Bjerke.

„Drengurinn hefur komist yfir lyklana heima, farið út, sest upp í bíl og ekið af stað,“ segir Steinar Husvik, talsmaður lögreglunnar í samtali við NRK.

Fólk í hverfinu tilkynnti lögreglu um málið eftir að hafa séð drenginn á ferð undir stýri.

„Bæði drengurinn og aðrir í umferðinni sluppu sem betur fer ómeiddir. Svo það er gott að þetta endaði farsællega,“ segir Husvik og bætir við að einhverjum hafi tekist að stöðva för drengsins áður en lögregla kom á vettvang.

Lögregla hefur rætt við foreldra drengsins og útskýrt fyrir þeim hvernig best sé að geyma bíllyklana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×