Erlent

Ísraelar ætla að sparka al-Jazeera úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skrifstofu al-Jazeera í Jerúsalem verður lokað nái ísraelsk yfirvöld sínu fram.
Skrifstofu al-Jazeera í Jerúsalem verður lokað nái ísraelsk yfirvöld sínu fram. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Ísrael ætla að ógilda fjölmiðlaskírteini fréttamanna al-Jazeera-sjónvarpsstöðvarinnar, loka skrifstofu hennar í Jerúsalem og loka á útsendingar hennar. Saka þau stöðina um að hafa kynt undir ófriði í Jerúsalem.

Ayoub Kara, fjarskiptaráðherra Ísraels, tilkynnti um aðgerðirnar í dag. Reuters-fréttastofan hefur hins vegar eftir ísraelskum embættismönnum að dómstólar þurfi að leggja blessun sína yfir þær áður en þær öðlast gildi.

Markmið aðgerðanna er að auka öryggi Ísraels og að láta stöðvar sem hafa bækistöðvar í landinu segja hlutlægar fréttir, að sögn Kara.

Talsmenn al-Jazeera segjast munu leita til dómstóla láti ísraelsk stjórnvöld til skarar skríða gegn stöðinni. Fréttamenn stöðvarinnar í Ísrael gera ekki ráð fyrir að þeir verði strax sviptir starfsleyfi.

Al-Jazeera er upprunin í Katar. Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hótaði að loka skrifstofum stöðvarinnar í landinu í síðasta mánuði en hann sakaði hana um að hvetja til ofbeldis í Jerúsalem, meðal annars í tengslum við deilur um Gömlu borgina þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×