Erlent

Aukinn þungi í rannsókn á meintum fjársvikum Jane Sanders

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jane Sanders, eiginkona Bernie Sanders, sætir nú rannsókn vegna gruns um að hún hafi svikið út margar milljónir dollara.
Jane Sanders, eiginkona Bernie Sanders, sætir nú rannsókn vegna gruns um að hún hafi svikið út margar milljónir dollara. vísir/getty
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur að undanförnu sett aukinn kraft í rannsókn sína á meintum fjársvikum Jane Sanders, eiginkonu öldungadeildarþingmannsins Bernie Sanders, sem bauð sig fram gegn Hillary Clinton til að verða forsetaframbjóðandi Demókrata.

Sanders er grunuð um að hafa veitt banka villandi upplýsingar og gefið fölsk fyrirheit til að fá lán upp á tíu milljónir dollara lán árið 2010.

Lánið var vegna kaupa á landareign fyrir lítinn háskóla í Burlington í Vermont en Sanders var forseti skólans. Kaupin á landareigninni komu skólanum í mikil fjárhagsleg vandræði sem urðu til þess að honum var lokað í fyrra.

Að því er fram kemur á vef Washington Post hafa saksóknarar hjá FBI lagt hald á gríðarlegt magn gagna í tengslum við rannsóknina og krafist þess að embættismaður gefi skýrslu fyrir kviðdómi.

Óttast að Trump muni nota rannsóknina gegn þeim

Þá hafa lögfræðingar Sanders-hjónanna rætt við ýmsa einstaklinga sem talið er að FBI gæti kallað til vitnis til þess að reyna að komast að því hvað þeir muni hugsanlega segja yfirvöldum.

Samkvæmt frétt Washington Post er rannsókn FBI bundin við Jane Sanders og meint fjársvik hennar og tengist ekki Bernie Sanders sjálfum. Hins vegar gæti rannsóknin leitt til pólitískrar ábyrgðar hans en Bernie Sanders er gríðarlega vinsæll stjórnmálamaður hjá vinstrisinnuðum Bandaríkjamönnum.

Talsmaður Sanders-hjónanna, Jeff Weaver, neitaði sakargiftum í síðustu viku. Hann sagði að Sanders-hjónin hefðu ráðið sér lögmenn því þau óttast að rannsóknin verði mögulega notuð til þess að koma höggi á þau ef Bernie Sanders sækist aftur eftir embætti Bandaríkjaforseta árið 2020.

„Á meðan Obama var forseti þá held ég að enginn hafi talið þörf á að fá sér lögfræðing út af svona tilhæfulausum ásökunum. En staðan er öðruvísi með Donald Trump og Jeff Sessions við stjórnvölinn,“ sagði Weaver.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×