Erlent

Afganskur hermaður skaut sjö bandaríska hermenn

Atli Ísleifsson skrifar
Camp Shaheen er í norðurhluta Afganistan.
Camp Shaheen er í norðurhluta Afganistan. Vísir/afp
Sjö bandarískir hermenn særðust þegar afganskur hermaður hóf skothríð á herstöð í norðurhluta Afganistan. Þetta er önnur innanbúðarárásin í landinu á viku.

Árásin átti sér stað í herstöðinni Camp Shaheen í Mazar-i-Sharif í Balkh-héraði í norðurhluta landsins.

Talsmaður afganska hersins greindi fyrst frá því að fjórir bandarískir hermenn hafi látið lífið í árásinni þar sem afganskur hermaður hafði ráðist gegn þeim. Talsmaður Bandaríkjahers neitaði þó þeim fregnum skömmu síðar og sagði sjö hafa særst í árás afgansks hermannsins sem var svo skotinn til bana. Ekki fengust þó frekari upplýsingar um atvikið.

Hreyfing Talibana fagnaði fréttunum af árásinni, en sagðist þó ekki bera ábyrgð á henni.

Þetta er önnur innbúðarárásin á herstöðvum í Afganistan á einni viku. Þann 10. júní skaut afganskur hermaður þrjá bandaríska hermenn til bana í Nangarhar-héraði í austurhluta landsins. Talibanar lýstu yfir ábyrgð á þeirri árás, þar sem árásarmaðurinn var einnig skotinn til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×