Erlent

Bæjarstjóri handtekinn eftir árás á franskan þingmann

Atli Ísleifsson skrifar
Repúblikaninn Kosciusko-Morizet sækist nú eftir endurkjöri.
Repúblikaninn Kosciusko-Morizet sækist nú eftir endurkjöri. Vísir/afp
Bæjarstjóri í frönskum smábæ hefur verið handtekinn vegna árásar á franska þingmanninn og fyrrverandi umhverfisráðherrann Nathalie Kosciusko-Morizet á kosningafundi í París fyrr í vikunni.

Repúblikaninn Kosciusko-Morizet missti meðvitund í nokkrar mínútur eftir að hafa slegið höfuðið í götuna eftir að maður þrýsti kosningabæklingi framan í hana. Hún var í kjölfarið flutt á sjúkrahús.

Lögregla hefur nú haft uppi á manninum sem réðst á Kosciusko-Morizet. Maðurinn sem um ræðir er hinn 55 ára Vincent Debraize, bæjarstjóri í smábænum Champignolles í Norður-Frakklandi.

Vísir/AFP
Fréttamaður AFP, sem varð vitni að árásinni, segir Debraize hafa kallað Kosciusko-Morizet „bobo“, sem ku vera annað orð yfir „hipster“, og svo þrýst bæklingnum framan í hana.

Debraize flúði frá staðnum en samflokksmaður Kosciusko-Morizet elti hann og beindi lögreglu á réttar slóðir svo hann var síðar handtekinn.

Kosciusko-Morizet sækist nú eftir endurkjöri en fyrri umferð þingkosninganna benda til að blaðamaðurinn Gilles le Gendre sem er í framboði fyrir flokk Emmanuel Macron Frakklandsforseta, La République en marche, muni ná þingsætinu af henni.

Síðari umferð frönsku þingkosninganna fer fram á morgun, sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×