Skoðun

Sáttameðferð

Helga Vala Helgadóttir skrifar
„Áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför er foreldrum skylt að leita sátta samkvæmt þessari grein.“

Svona hljóðar 33. gr. a. liðar barnalaga. Langflestir foreldrar ná að sættast og þá er þetta lítið mál, en við lögmenn fáum til okkar þá sem ekki geta náð sáttum. Sáttameðferð getur borið árangur en í sumum tilvikum eru aðstæður þannig að það er beinlínis óæskilegt að leggja slíka meðferð á aðila. Á Íslandi eru engar undanþágur veittar við þessu ákvæði barnalaga.

Þannig þarf einstaklingur sem flýr heimili sitt með börn sín undan ofbeldi og vanvirðingu að undirgangast sáttameðferð áður en hægt er að halda áfram með málin. Hægt er að óska eftir því að þurfa ekki að sitja sáttameðferð í sama herbergi og ofbeldismanneskjan en engu að síður þarf þetta ferli allt að eiga sér stað með tilheyrandi drætti á lausn málsins.

Þá er einnig skylda að leita sátta þegar umgengnisforeldri skilar ekki barni heim til sín að lokinni umgengni sem og þegar lögheimilisforeldri tálmar umgengni. Breytir þar engu þó viðkomandi aðilar hafi á undanförnum mánuðum setið sáttameðferð vegna deilu um forsjá, lögheimili eða annað. Sáttameðferð skal fara fram og mánuðirnir líða vegna álags á embættum sýslumanns. Barnið, sem bitist er um, líður þarna fyrir kerfið sem sett var í upphafi með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Kerfið sem í dag er lamað vegna fjárskorts og starfsmannaeklu.

Það mætti vel endurskoða þetta ákvæði barnalaga, svona fyrst löggjafinn er á annað borð að velta þessum málum fyrir sér. Setja inn undanþáguákvæði, þó ekki væri nema til að létta á lömuðu kerfinu.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.