Erlent

Hákarlar syntu nánast upp í fjöru

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkrir hákarlar sáust nánast synda upp í fjöru í Myrtle Beach í Suður-Karólínu á þriðjudaginn. Á myndbandi sem veiðimaður náði af hákörlunum má sjá fólk standa í fjöruborðinu og fyljgast með hákörlunum synda þar.

Myndbandinu var deilt á Facebook síðu strandarinnar þar sem það hefur fengið mikla athygli.

Ekki sést á myndbandinu hvernig hákarla er um að ræða. Cody Kinzer, sem tók myndbandið, segir í samtali við WRAL.com að um tíu hákarlar hafi verið á ferðinni þarna og þeir hafi verið allt að tæplega tveggja metra langir.

Fólkið á ströndinni hafði orðið vart við hákarlana og kom sér upp úr. Kinzer segir þó að einn strandgestur hafi vaðið út í sjóinn aftur, en hljóp aftur í land þegar einn hákarlanna synti í átt að honum.

Þá segist hann hafa farið margoft á þennan stað til að veiða og að hann hafi aldrei séð annað eins.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×