„Ég er búinn að koma fram á Þjóðhátíð á hverju ári síðan 2008, fyrir utan á síðasta ári en þá tók ég mér langþráð sumarfrí og keyrði alla Kaliforníuströndina eins og hún leggur sig,“ segir söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson sem mun koma fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á laugardagskvöldinu klukkan eitt eftir miðnætti.
Páll Óskar verður með tvenna risatónleika í Laugardalshöllinni í september og segir hann að þar verði öllu tjaldað til.
„Akkúrat á þessum tíma verða tæknilegir hlutar af tónleikunum í Höllinni tilbúnir og ég næ að taka þá yfir til Vestmannaeyja og forsýna þá í Herjólfsdal, gefa fólkinu bara smá smakk. Ég get lofað öllum því að ég ætla gera Herjólfsdal algjörlega kjaftstopp. Ég er líka að taka upp plötu núna svo það verður geggjað að keyra nýju lögin í bland við þessi gömlu.“
Hann segir að það sem geri Þjóðhátíð svona einstaka er Herjólfsdalur.
„Það er eins og dalurinn sé hannaður eins og tónleikahús af náttúrunnar hendi. Það er mjög erfitt að koma því í orð hvernig það er að troða upp fyrir kannski fimmtán þúsund manns í Herjólfsdal. Það varð gjörbreyting á allri vinnuaðstöðu fyrir listamennina þegar nýja steypta aðalsviðið kom. Það er ómetanlegt fyrir listamennina að geta gengið að þessari vinnuaðstöðu og líka fyrir áhorfendurna að vera með þessa risaskjái. Þeir verða t.d. til þess að ég get blikkað alla í dalnum.“
Palli segist ætla gera algjörlega ógleymanlega kvöldstund fyrir gesti Þjóðhátíðar.
„Reynslan mín hefur kennt mér að veðrið skiptir engu máli á Þjóðhátíð. Þótt það sé grenjandi rigning þá er öllum alveg nákvæmlega sama, það vilja bara allir skemmta sér. Og ég ætla að gera mitt besta til að gera þessa Þjóðhátíð ógleymanlega.“
Páll Óskar á Þjóðhátíð: „Ég ætla gera Herjólfsdal algjörlega kjaftstopp“

Tengdar fréttir

Sumarsmellurinn í ár: Páll Óskar og StopWaitGo í Einum dansi
Páll Óskar Hjálmtýsson gaf út nýtt lag í hádeginu í dag og ber það nafnið Einn dans. Lagið vann hann í samstarfi við strákana í StopWaitGo og sveitina Sísí Ey og Ellen Kristjáns.

Páll Óskar snýr aftur í leiklistina: „Hlakka til að fá að hitta Frank'n'Furter aftur“
„Ég mun leika Frank'n'Furter í söngleiknum sem ég elska, Rocky Horror í Borgarleikhúsinu,“ segir söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson, í stöðu færslu í Facebook.

Páll Óskar býðst til að taka við Snapchat-inu hjá aðdáendum sínum
Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson býðir aðdáendum sínum þjónustu sína á Snapchat.

Páskabónorð á Ísafirði: Axel fór á skeljarnar á sviðinu hjá Páli Óskari
Axel Ingi Árnason og Jóhann Frímann Rúnarsson eru trúlofaðir en Axel Ingi skellti sér á skeljarnar um páskana.