Innlent

Bregðast þurfi strax við vaxandi fjölda banaslysa

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Árið 2016 var mjög slæmt ár í umferðinni hvað alvarleg slys og banaslys varðar og árið í ár lítur ekki vel út. Þetta segir sérfræðingur Samgöngustofu. Áhugaleysi á umferðaröryggismálum í samfélaginu og farsímanotkun skýri mikla fjölgun slysa.

Samgöngustofa gaf í morgun út slysaskýrslu fyrir árið 2016. Þar kemur fram að 18 einstaklingar létu lífið í umferðinni í fyrra og hafa ekki svo margir látist í umferðinni frá árinu 2006. Þá fjölgaði alvarlega slösuðum í umferðinni í fyrra um 37, en þetta er aukning upp á 21 prósent á milli ára.

Samandregin niðurstaða Samgöngustofu er skýr – árið 2016 var mjög slæmt ár í umferðinni.

Aukin farsímanotkun við akstur

Hvað skýrir þessa aukningu?

„Það er ekkert einhlítt svar í rauninni við því. En það má segja að það hafi verið svona á undanförnum árum ákveðið áhugaleysi í samfélaginu varðandi umferðaröryggismál. Það er nú reyndar sem betur fer að verða ákveðin breyting þar á,“ segir Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Þá sé hluti af skýringunni aukin notkun farsíma við akstur, eða að keyra undir áhrifum farsíma eins og Einar orðar það.

„Það eru fjöldi rannsókna sem að sýna fram á það að það verða sambærileg áhrif við þessa truflun sem verður á athygli þinni sökum farsímanotkunar, eins og það að þú sért undir áhrifum vímuefna,“ segir Einar.

Bregðast þurfi strax við

Samgöngustofa telur að bregðast þurfi strax við vaxandi fjölda banaslysa og undirbýr nú sérstakt átak þar sem sérstök áhersla verður lögð á notkun farsíma í umferðinni og öryggi erlendra ferðamanna.

Samkvæmt skýrslunni eru langstærstur hluti þeirra sem láta lífið eða slasast í umferðinni Íslendingar – eða 70 til 78 prósent. Erlendir ferðamenn á bilinu 11 til 22 prósent.

„Og við sjáum þetta líka bara í annarri tölfræði varðandi slysin, það eru í flestum tilvikum Íslendingar. Og það er ekki hægt að koma sök á aðra en okkur sjálf í þessum efnum,“ segir Einar.

2017 lítur illa út

Hvernig hefur árið 2017 farið af stað hvað alvarleg slys og banaslys varðar?

„Ég get ekki látið uppi tölfræði í þeim efnum. En það lítur ekki vel út. Það er alveg óhætt að segja það.“

Áframhald af því sem við sáum árið 2016?

 

„Já, að minnsta kosti,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×