Innlent

Fangar á Hólmsheiði segja lítið sem ekkert vera um fíkniefni í fangelsinu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lítið sem ekkert er um fíkniefni í fangelsinu á Hólmsheiði. Fangar á gangi númer átta segjast aldrei hafa átt eins auðvelt með að halda sig frá neyslu.  Loks sé fangelsisvistin nálguð sem betrun í stað refsingar. Varðstjóri tekur undir með föngunum.

Á ganginum eru átta fangar vistaðir sem margir voru áður á Litla-Hrauni. Þeir eru allir sammála að fangelsið á Hólmsheiði sé allt annað og að nú sé vistin loksins að skila árangri. „Það er bara ekki hægt að líkja þessu saman við Litla-Hraun. Þeir sem vilja gera eitthvað í sínum málum þá er hér fínt pláss til að vera edrú. Gjörsamlega fíkniefnalaust og mjög góður mórall hérna,“ segir Davíð Arciszewski, sem afplánar nú á Hólmsheiði.

Hann segir að á Litla Hrauni sé gríðarlega mikið af fíkniefnum og því sé nánast útilokað að koma sér á beinu brautina í afplánun þar. „Fólk er að koma hingað og það er ekkert efni hér. Þeir sem vilja gera eitthvað í sínum málum þeir eru bara edrú. Hér er fólk að reyna standa sig. Hér er betrunarvist. Miklu betra en á Litla-Hrauni,“ segir Daníel.

Sem dæmi um það hve mikill vilji er meðal fangana að bæta sig var AA-fundum bætt við í fangelsinu á dögunum. „Fyrir tveimur vikum fékk ég leyfi til þess að halda AA-fundi sjálfur fyrir liðið fyrir þá sem vilja koma. Bæði fyrir stelpurnar og strákana. Það gekk  mjög vel þannig við fengum fast leyfi til að halda fundi sjálfir,“ segir Daníel og bætir við að mætingin á fundina sé mjög góð.  

Þórir Guðlaugsson, varðstjóri, tekur undir það að ekkert sé um neyslu í fangelsinu. „Þeir standa vel saman. Þeir vilja ekki neysluna inn í húsið,“ segir hann og bætir við að umræddur fangahópur sér sérstaklega góður. 

„From day one þá hefur andrúmsloftið verið gott þarna. Þeir hafa allir viljað standa sig og þeir hugsa vel um sjálfan sig og styðja hvorn annan,“ segir Þórir.

Daníel segir að samskipti fanga og fangavarða á Hólmsheiði séu mjög góð og að fangaverðirnir komi vel fram við fangana. Þá sé oftast nóg að gera í fangelsinu sem sé jákvæð þróun frá því sem áður var. Hann er þó gagnrýnin á þá peningafjárhæð sem fangar fá á viku. Daníel er mikill áhugamaður um góðan mat og hefur séð um að elda fyrir fangana á gangi 8 og er matseðillinn þessa páskana ekki af verri endanum.

„Í kvöld verður lambahryggur og á morgun verða svínalundir. Maður reynir að hafa þetta eins gott og maður getur,“ segir Daníel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×