Innlent

Íbúar í Boðaþingi ringlaðir og hræddir: Sent uppsagnarbréf eftir dóm héraðsdóms

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorsteinn Þorsteinsson, íbúi í Boðaþingi, fer fyrir íbúum.
Þorsteinn Þorsteinsson, íbúi í Boðaþingi, fer fyrir íbúum. vísir/hanna
Formaður íbúafélags í þjónustuíbúðum í Boðaþingi segir að íbúar í þjónustuíbúðum Sjómannadagsráðs séu bæði hræddir og ringlaðir, eftir að leigusalinn sendi þeim íbúum uppsagnarbréf, sem að neituðu að samþykkja að falla frá greiðslum, sem héraðsdómur dæmdi leigusalann til þess að gefa þeim. RÚV greinir frá

Fram kemur að íbúar fimm íbúða í Boðaþingi hafi gert athugasemdir við um fjórtán þúsund króna húsgjald, sem þeim var gert að greiða til viðbótar við húsaleigu.

Þeir töldu að sér bæri ekki að greiða fyrir allt það sem húsgjaldið var notað til og var tekið sem dæmi stjórnunarkostnað Naustavarar, sem er leigusalinn í eigu Sjómannadagsráðs, kostnað vegna húsvörslu, eftirlitskerfa í sameign og reksturs púttvallar. Bæði kærunefnd húsnæðismála sem og héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íbúum í vil.

Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Íbúafélags Boðaþings 22-24, tekur fram Naustavör beri ekki einungis að hætta að innheimta viðkomandi upphæð, heldur beri þeim að borga hana til baka og á Þorsteinn þá rétt á tæpum 300.000 krónum.

Í framhaldi af þessu sendi Naustavör öllum íbúum í þjónustuíbúðum sínum í Kópavogi, Garðabæ og Reykjanesbæ bréf, þar sem segir að hætt verði við innheimtu húsgjaldsins en þess í stað verði húsaleigan hækkuð um sömu upphæð og húsgjaldið var áður.

Þá er íbúum jafnframt gert að undirrita nýjan leigusamning, þar sem segir að með undirritun samþykki íbúar að engar kröfur séu á milli hans og Naustavarar, þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms.

Þorsteinn skuli því gefa eftir þær þrjú hundruð þúsund krónur sem honum voru dæmdar. Það vildi hann ekki fallast á og fékk því uppsagnarbréf. Hann segir íbúa ringlaða og hrædda.

Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við RÚV, að ekki sé verið að fara á bak við neinn og segir hann að reynt sé að umgangast málið þannig að finna megi lausn á „lagatæknilegu vandamáli sem komið er upp í stöðunni.“

„Í leigusamningnum sem upphaflega var, er þessa gjald getið, það er húsaleigunnar og húsgjaldsins. Þannig er ekki verið að fara á bak við nokkurn mann, heldur er bara verið að gera breytingu þar sem húsgjaldið er fært inn í húsaleiguna og áfram veitt sama þjónusta.“

Sigurður segir að þeim íbúum sem ekki hafi viljað samþykkja nýja samninginn, verði boðinn nýr. Hann segir að nýir samningar verði ekki á sömu kjörum og eldri samningar.

Spurður hvort að það sé ekki bara til þess að innheimta sömu gjöld og það sem héraðsdómur hafi dæmt fólkinu, segir Sigurður að það sé ekki búið að kanna það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×