Innlent

Hestaleiga er bótaskyld vegna hests sem sturlaðist

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Konan fór á bak og þegar hestinum var sleppt þá rauk hann af stað.
Konan fór á bak og þegar hestinum var sleppt þá rauk hann af stað. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur Íslands féllst í síðustu viku á skaðabótakröfu konu sem slasaðist í skipulagðri hestaferð hjá Kálfholti hestaferðum. Konan féll af baki og hlaut við það beinbrot á framhandlegg og rifbeini auk þess að bólgna og hljóta mar á baki og hálsi. Áður hafði Héraðsdómur Suðurlands fallist á kröfu konunnar.

Slysið átti sér stað í ágúst 2013 í fjögurra daga hestaferð sem auglýst var fyrir fólk sem hefði einhverja reynslu af hestaferðum og væri hún ekki fyrir byrjendur. Að mati leiðbeinenda ferðaþjónustufyrirtækisins þá var geta hópsins minni en búist hafði verið við og hefði því verið ákveðið að taka inn í ferðina hesta sem hentuðu hópnum betur. Þar á meðal hefði verið hrossið sem konan féll af.

Að sögn eigenda fyrirtækisins þá var þar um að ræða þægan barnahest. Konan fór á bak og þegar hestinum var sleppt þá rauk hann af stað. Ljóst þótti að hjálmur konunnar bjargaði því að ekki fór verr en skarð kom í hann. Hún missti meðvitund við fallið.

Í dómnum kemur fram að hesturinn hafði farið í hestakerru um 30 kílómetra leið og síðan verið komið fyrir í um klukkustund í gerði með hrossum sem sum voru honum ókunn. Forsvarsmaður hestaleigunnar telur mögulegt að ferðin í kerrunni hafi valdið streitu hjá hestinum auk þess sem það kunni að hafa valdið ótta hjá honum að vera í gerði með ókunnugum hestum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×