Handbolti

Sverre: Erfitt að kyngja þessu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þjálfarinn Sverre Jakobsson lék  í vörn Akureyrarliðsins í kvöld.
Þjálfarinn Sverre Jakobsson lék í vörn Akureyrarliðsins í kvöld. vísir/Andri Marinó
„Það er rosalega erfitt að kyngja þessu, við komum inn í leikinn, vissum hvað þyrfti til og lögðum allt í þetta en það vantaði herslumuninn til að sigra þennan leik,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson svekktur að leikslokum eftir að ljóst var að Akureyri væri fallið niður úr deild þeirra bestu.

Sverre sagði töfluna ekki ljúga, það hefði vantað upp á í vetur en að þeir hefðu aldrei gefist upp.

„Við erum neðstir af ástæðu en ég ætla samt ekkert að taka neitt af liðinu. Við gátum auðveldlega gefist upp og vorkennt okkur með snuð í munni miðað við allt sem gekk á en við höfum aldrei gert það, gáfumst ekki upp og fengum líflínu sem okkur tókst ekki að nýta.“

Það var margt sem fór úrskeiðis hjá Akureyringum í dag.

    

„Okkur tókst ekki sem lið að láta hlutina smella á öllum vígstöðum í dag. Við eigum fínustu spretti en það þurfti meira til eftir að við gáfum þeim auðveld mörk undir lok fyrri hálfleiks. Það vantaði aðeins á öllum sviðum handboltans í kvöld og það gerir útslagið,“ sagði Sverre sem lék í leiknum í kvöld en sagði þetta vera síðasta leik ferilsins.

„Þeir eru að fara upp í hillurnar, skórnir, í þriðja skiptið en ég geri ráð fyrir að halda áfram sem þjálfari að reyna að byggja upp nýtt lið. Við erum að missa nokkra lykilleikmenn og það er hluti af harkinu að vera með lið út á landi en við erum bjartsýnir á framhaldið og það opnar vonandi dyr fyrir aðra leikmenn,“ sagði Sverre sem tók undir að það væri súrt að enda á tapi.

„Ég mun aldrei gleyma þessum en við gáfumst aldrei upp, hvorki í dag né í vetur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×