Lífið

„Bara ef pabbi hefði vitað af mætti Pepsi“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Réttindabarátta svartra hefði verið auðleysanleg ef Pepsi brellan hefði virkað á sjöunda áratugnum.
Réttindabarátta svartra hefði verið auðleysanleg ef Pepsi brellan hefði virkað á sjöunda áratugnum. Skjáskot/Youtube
Netheimar fóru á hliðina í gær vegna umdeildrar Pepsi auglýsingar með raunveruleikaþáttastjörnunni og fyrirsætunni Kendall Jenner. Auglýsingin olli svo mikilli hneikslan að gosdrykkjarisinn ákvað að taka auglýsinguna úr dreifingu og baðst meðal annars afsökunar á því að hafa sett Jenner í þessa aðstöðu, en hún var harðlega gagnrýnd fyrir þáttöku sína.

Gagnrýni á auglýsinguna hefur verið margþætt. Myndmálið sem notað er, að Kendall Jenner sé hvít forréttindakona sem virðist leysa réttindabaráttu allra minnihlutahópa með einni gosdós, tónlistin sem spiluð er undir og svo mætti lengi telja.

Auglýsingin hafði yfirskriftina „Jump In“ eða „taktu þátt“ og í henni sést Jenner ganga út úr myndatöku til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum ásamt fjölbreyttum hópi fólks. Ekki er ljóst hverju er verið að mótmæla en friðarmerki og hjörtu eru höfð á lofti ásamt slagorðum eins og „taktu þátt í samtalinu.“ Á sama tíma sést ljósmyndari, kona með slæðu, á vinnustofu sinni og virðist skorta innblástur. Hún tekur einnig eftir mótmælunum og grípur með myndavél til að mynda þau.

Þegar á hólminn er komið taka lögreglumenn við mótmælendum til að hafa hemil á því sem gengur á. Jenner sést grípa Pepsi dós og rétta lögreglumanni. Á sama tíma smellir ljósmyndarinn af mynd. Lögreglumaðurinn sést yppta öxlum og brosa til samstarfsfélaga sinna, mótmælendur fagna og slagorð Pepsi, „Live for Now“ eða „lifðu núna“ lokar auglýsingunni, sem er tæpar þrjár mínútur í fullri lengd.

Lokaatriði auglýsingarinnar þykir líkja mikið til ljósmyndarinnar Taking a Stand in Baton Rouge sem ljósmyndarinn Jonathan Bachman festi á filmu á mótmælum í Louisiana í júlí á síðasta ári.

Fólk hafði komið saman til að mótmæla morðinu á Alton Sterling, 37 ára gömlum svörtum karlmanni sem lögregla skaut af litlu færi. Sterling hafði verið að selja geisladiska og var sagður hafa ógnað fólki með byssu fyrir utan matvöruverlsun. 

Á myndinni sést Iesha Evans, 35 ára gamall hjúkrunarfræðingur, vera handtekin af óeirðalögreglumönnum við mótmælin. Evans var handtekin og haldið yfir nótt, en myndin fór á flug og varð fljótt táknmynd fyrir baráttuna gegn lögregluofbeldi.

Lagið Lions með Skip Marley heyrist í bakgrunni, en hann er dóttursonur hins goðsagnakennda Bob Marley. Lagið kom út í byrjun árs og hafa margir túlkað texta lagsins sem viðbragð við embættistöku Donalds Trump bandaríkjaforseta.

Marley hefur sjálfur sagt að laginu sé ekki ætlað að vera viðbragð við Trump en að hann sé ánægður með það ef lagið veiti Bandaríkamönnum styrk til að berjast móti ranglæti.

Yeah, if ya took all my rights away

Yeah, if ya tellin' me how to pray

Yeah, if ya won't let us demonstrate

Yeah, you're wrong

Yeah, if ya thinking I don't belong

Yeah, if ya hiding behind a gun

Yeah, if ya hoping we're gonna run, run

We are the lions, we are the chosen

We gonna shine out the dark

We are the movement, this generation

You better know who we are, who we are

„Ef ég hefði verið með Pepsi, þá hefði ég líklega aldrei verið handtekinn. Hvern hefði grunað? Pepsi, þessi auglýsing er rusl.“

Þetta voru viðbrögð DeRay McKesson, eins þekktasta meðlims Black Lives Matter hreyfingarinnar, sem barist hefur gegn lögregluofbeldi gegn svörtum síðustu ár.

Réttindabarátta minnihlutahópa í Bandaríkjunum hefur verið löng og ströng. Allt frá Martin Luther King, Malcolm X og Stonewall til Black Lives Matter og 26. júní árið 2015 þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að bann við hjónabandi samkynhneigðra væri brot á stjórnarskrá landsins.

Það þykir því skjóta skökku við að Kendall Jenner, sem þénaði 17 milljónir bandaríkjadala á síðasta ári, eða um 1,9 milljarða íslenskra króna, sé stillt upp sem bjargvætti baráttunnar.

 

Bernice King, yngsta dóttir Martin Luther King, sagði til dæmis „Bara ef pabbi hefði vitað um vald Pepsi.“ En Martin Luther King var, eins og flestum er kunnugt, myrtur þann 4. apríl árið 1968 fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum svartra í Bandaríkjunum. Auglýsing Pepsi var birt þann 4. apríl síðastliðinn, nákvæmlega 49 árum eftir að King var myrtur. 

Er öll umfjöllun góð umfjöllun?

En kannski svínvirkaði auglýsingin. Margir hafa lengi haldið því fram að öll umfjöllun sé góð umfjöllun og vörumerkið Pepsi hefur jú verið á allra vörum síðustu daga, hvort sem það er í jákvæðu samhengi eða neikvæðu. 

Það er í það minnsta mat blaðamanns The Atlantic sem segir að með því að hafa tekið auglýsinguna úr dreifingu hafi Pepsi náð að friða alla. Aðdáendur Kardashian fjölskyldunnar hafa fengið sinn skerf af Kendall Jenner. 

Baráttufólkinu finnst það hafa unnið slag við risa fyrirtæki. Fjölmiðlar hafa úr nægu að moða (eins og blaðamaður Atlantic og blaðamaður Vísis) og athyglin er öll, þegar öllu er á botninn hvolft, á Pepsi. Hvort að allt umtalið auki sölutölur er svo önnur spurning.


Tengdar fréttir

Pepsi hættir við umdeilda auglýsingu

Auglýsingin, sem skartar Kendall Jenner í aðalhlutverki, hefur verið harðlega gagnrýnd. Pepsi hefur beðið Jenner opinberlega afsökunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×