Innlent

Ekki fleiri stórvirkjanir

Svavar Hávarðsson skrifar
Tími stórvirkjana og náttúruspjalla sem þeim fylgja er liðinn, segir Landvernd.
Tími stórvirkjana og náttúruspjalla sem þeim fylgja er liðinn, segir Landvernd. vísir/gva
Landvernd hefur sent Alþingi athugasemdir vegna þingsályktunartillögu að flokkun virkjunarhugmynda í 3. áfanga rammaáætlunar, og leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að hægja verulega á eða stöðva uppbyggingu frekari stórvirkjana hérlendis. Að minnsta kosti þar til fyrir liggur ígrunduð orkustefna þar sem meðal annars er tiltekið hvað megi virkja mikið á næstu árum eða áratugum og í hvaða tilgangi.

Áætlunin segir til um hvar megi virkja og hvar ekki. Segir Landvernd að orkunýtingarflokkur hafi samkvæmt tillögunni að geyma 1421 megavatt sem sé svipað og tvær Kárahnjúkavirkjanir. Fjölmörgum náttúruperlum hafi þegar verið fórnað fyrir stóriðju.

Á sama tíma fagnar Landvernd verndun stórra vatnsfalla sem upptök eiga á hálendinu, eins og Skjálfandafljóts, Jökulsánna í Skagafirði og Skaftár. Samtökin mótmæla hins vegar flokkun virkjanahugmynda í nýtingarflokk á hálendinu, Reykjanesskaga, austanverðum Vestfjörðum og víðar, t.d. Skrokkölduvirkjun á Sprengisandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×