Erlent

Fellibylur veldur usla á stærstu eyju Japans

Kjartan Kjartansson skrifar
Fellibylurinn Noru eins og hann kom fyrir sjónir Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðina.
Fellibylurinn Noru eins og hann kom fyrir sjónir Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðina. NASA/Jack Fischer
Þúsundir manna var skipað að yfirgefa heimili sín á Honshu, stærstu eyju Japans, þegar fellibylurinn Noru gekk þar á land í dag. Miklar rigningar og hvassviðri fylgdi storminum sem olli flóðum í ám.

Noru var til skamms tíma í fimmta flokki fellibylja, öflugasta flokki þeirra, en er talin verða að hitabeltislægð síðar í dag. Stormurinn hefur reynst óvenjulega langlífur.

Úrkoma á Honshu mældist 40 millímetrar á milli kl. 9 og 10 í morgun að staðartíma. Yfirvöld vöruðu þá við hættu á aurskriðum og að ár gætu flætt yfir bakka sína, samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar. Sjö þúsund manns í borginni Fukui var skipað að yfirgefa heimili sín í morgun en rýmingu var aflétt kl. 11.

Ríkisútvarpið NHK segir að um fimmtíu manns hafi slasast í óveðrinu. Tveir fórust um helgina.

Í tístinu hér fyrir neðan má sjá mynd sem bandaríski geimfarinn Jack Fischer tók af Noru frá Alþjóðlegu geimstöðinni 1. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×