Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis í gær sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, að slík stýring þyrfti ekki endilega að snúast um gjaldtöku. Bílastæðagjöld gætu verið hluti af álagsstýringu en einnig sérleyfi eða einhvers konar fyrirframskráning.
Þá gæti landvarsla haft mikið að segja sem og skipulag og umferðarstýring á gönguleiðum. Það væri hins vegar fyrst og fremst í verkahring ábyrgðar-og umsjónaraðila hvers svæðis að móta hvernig aðgangs-og álagsstýringu væri best háttað á hverjum stað.
Sjá einnig: Gjaldtaka á ferðamannastöðum: Allur skalinn í krónum og eilíft þrætuepli

„Við höfum viljað taka ábyrgð og koma með stjórnvöldum í þá vegferð að tryggja auknar tekjur í gegnum ýmsa virðisaukandi þjónustu sem á sama tíma myndi tryggja uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum en svo eiginlega fallast manni hendur vegna þessarar ætluðu skattahækkunar sem er ákvörðun sem tekin er af stjórnvöldum án nokkurs samráðs né greiningar á afleiðingum þessa á fyrirtækin um land allt,“ segir Helga í samtali við Vísi.
Ekki æskilegt að setja upp gjaldhlið um landið
Hún segir mun vænlegra að taka umræðuna um aukna gjaldtöku frekar en að ferðaþjónustan greiði enn hærri skatt.
„Með því erum við að tryggja aukið skipulag, álagsstýringu og mun betra flæði um landið því það er stóra áskorunin okkar núna að ná betra flæði um landið. Þó svo að margir telji álagið mikið í Reykajvík er staðan langt frá því að vera sú sama á landsbyggðinni. Þar liggja tækifærin fyrst og síðast, en með áætunum ríkisstjórnarinnar er verið að stefna þeim í hættu,“ segir Helga.

„Nei, og það sýna allar kannanir að það sem gerir Ísland sérstakt er þetta frjálsa flæði og eins tel ég það vera það sem við Íslendingar viljum búa við og höfum reyndar gert frá örófi alda. Það er því mikilvægt að halda í þá ímynd og sérstöðu og þá er miklu vænlegra að horfa til þess að tryggja greiðslu fyrir virðisaukandi þjónustu því það er það sem viðskiptavinurinn er tilbúinn til að borga fyrir. Það er skilvirk og einföld leið og skilar sér líka í bættri upplifun ferðamannsins,“ segir Helga og bætir við að menn eigi að skoða málið heildstætt.
Segir skattpíningu ekki leiðina til að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar
„Ef þú ætlar að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar á Íslandi og ná markmiðum um dreifingu, álagsstýringu, sjálfbærni og annað þá er skattpíning og aukið flækjustig ekki leiðin. Staðreyndin er sú að það er ekki línulegt samband milli fjölgunar ferðamanna og afkomu fyrirtækjanna vegna tugprósenta högga í formi gengisstyrkingar og kostnaðarukningar. Fyrirtækin verða að geta byggt upp til að geta skilað sínu til ríkisins“
En ef farið yrði í gjaldtöku með einhverjum hætti hvað ætti þá að gera við tekjurnar? Ætti peningurinn að verða eftir á staðnum til uppbyggingar?
„Já, að stærstum hluta tel ég að fjármunirnir ættu að verða eftir á hverjum stað en á sama tíma þyrfti að tryggja uppbyggingu nýrra segla um allt land. Slíkt styður enn frekar við álagsdreifingu og eflir enn frekar byggðir hringinn í kringum landið,“ segir Helga.
Nánar verður fjallað um gjaldtöku á ferðamannastöðum hér á Vísi næstu daga.