Erlent

Flugmaður sem náði að nauðlenda í Amason fórst við björgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafbúnaður vélarinnar bilaði yfir Amasonskóginum og flugmaðurinn lenti á fljóti.
Rafbúnaður vélarinnar bilaði yfir Amasonskóginum og flugmaðurinn lenti á fljóti. Skjáskot/Youtube
Brasilískur flugmaður hrapaði til bana þegar björgunarþyrla reyndi að bjarga honum úr Amasonfrumskóginum. Maðurinn hafði náð að nauðlenda vél sinni á fljóti og bjarga farþega sínum.

Elcides Rodrigues Pereira, 64 ára gamall flugmaður vélarinnar, og Ednilson Cardoso, 28 ára gamall sjúkraliði, voru að heimsækja afskekta ættbálka í frumskóginum til að veita þeim heilbrigðisþjónustu þegar rafbúnaður vélarinnar bilaði á miðvikudag í síðustu viku.

Pereira náði hins vegar að lenda vélinni í á sem tilheyrir vatnasviði Amasonfljótsins. Sökk vélin á nokkrum sekúndum en mönnunum tókst að komast á þurrt land, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.



Náði nauðlendingunni á myndband

Tvímenningarnir þurftu að bíða klukkustundum saman eftir björgun þar sem erfitt var að ná til þeirra í frumskóginum. Björgunarmenn hentu reipi niður úr þyrlu en Rodrigues missti tak á því og fékk ofan í Catrimani-ána. Hann fannst látinn á laugardag.

Í frétt BBC kemur fram að björgunarliðið var á vegum eigenda flugvélarinnar en ekki yfirvalda.

Sjúkraliðinn festi á filmu augnablikin þegar flugmaðurinn sveif vélinni til lendingar á ánni. Það hefur verið birt í brasilískum fjölmiðlum, þar á meðal Folha de Sao Paulo




Fleiri fréttir

Sjá meira


×