Erlent

Fjöldi dauðsfalla vegna öfga í veðurfari mun fimmtíufaldast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá snjódeginum mikla í febrúar síðastliðnum.
Frá snjódeginum mikla í febrúar síðastliðnum. Vísir/GVA
Öfgar í veðurfari gætu drepið næstum 152 þúsund manns árlega í Evrópu í upphafi nýrrar aldar ef ekki verður brugðist við.

Fjöldi dauðsfalla sem rekja má til öfgakennds veðurs mun því fimmtíufaldast á næstu 80 árum ef marka má viðvaranir vísindamanna í grein sem birtist í The Lancet Planetary Health á dögunum.

Sjá einnig: Íbúar í Evrópu búa sig undir mesta hita í um áratug

Hitabylgjur munu bera ábyrgð á langflestum dauðsfallanna, eða um 99 prósent, og flestir munu láta lífið í suðurhluta álfunnar.

Sérfræðingar segja niðustöðurnar mikið áhyggjuefni en aðrir hafa ekki viljað taka jafn djúpt í árinni og telja niðurstöðurnar ofmeta hættuna. Nauðsynlegt sé þó að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda og sporna við enn frekari hlýnun jarðar.

Sjá einnig: Öfgar í veðurfari vegna loftslagsbreytinga ekki farnar að koma fram hér á landi

Meðal annarra niðurstaðna rannsóknarinnar, sem greindi veðurofsa í öllum 28 löndum Evrópusambandsins sem og Sviss, Noregi og Íslandi, er að um 66 prósent íbúa álfunnar munu verða fyrir barðinu á veðuröfgum. Hlutfallið við upphaf aldarinnar var 5 prósent. Þá mun dauðsföllum vegna flóða fjölga verulega; í dag látast um 6 Evrópubúar árlega í flóðum en verða orðnir 233 í lok aldarinnar.

Vísindamennirnir greindu náttúruhamfarir á árabilinu 1981 til 2010 og báru það saman við áætlanir sem gerðar hafa verið um möguleg áhrif loftslagsbreytinga. Þeir gerðu ráð fyrir því að hitastigið á jörðinni myndi vera um 3 gráðum hærra í lok aldarinnar en það er nú - um einni og hálfri gráðu hærra en gert er ráð fyrir í Parísarsamkomulaginu.

Bandaríkin sögðu sig frá samkomulaginu í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×