Erlent

Telur lögleiðingu á hjónaböndum hinsegin fólks tímaspursmál

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Leo Varadkar er fyrsti forsætisráðherra Írlands sem er samkynhneigður
Leo Varadkar er fyrsti forsætisráðherra Írlands sem er samkynhneigður Vísir/AFP
Forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar, telur einungis tímaspursmál hvenær hjónabönd samkynhneigðra verða lögleidd í Norður-Írlandi en Norður-Írland er eini hluti Bretlands þar sem hjónabönd hinsegin fólks eru ekki leyfð samkvæmt lögum.

Varadkar er í opinberri heimsókn í landinu og hélt ræðu á „The northern Whig Club” í Belfast þar sem var verið að undirbúa Gleðigönguna. Michelle ONeill, þingflokksformaður þjóðernisflokksins Sinn Fein á Norður-Írlandi, mætti einnig á viðburðinn ásamt fjölmörgum talsmönnum réttinda hinsegin fólks.

Leo Varadkar er fyrsti forsætisráðherra Írlands sem er samkynhneigður en hann greindi frá því í útvarpsviðtali árið 2015 þegar kosningar stóðu yfir í Írlandi um lögleiðingu á hjónaböndum samkynhneigðra.

Óviðeigandi afskipti af stjórnmálum landsins

Var hann gagnrýndur harðlega af nokkrum þingmönnum stærsta flokks Norður Írlands, DUP, fyrir framkomu sína á „The northern Whig Club”. Í síðustu viku lýstu nokkrir þingmenn DUP yfir áhyggjum sínum með ákvörðun Varadkar að mæta á viðburðinn. Töldu þeir þetta vera óviðeigandi afskipti af stjórnmálum nágrannalandsins.

Leo sagði tilgang ræðunnar ekki vera þann að koma einhverjum í uppnám og skapa glundroða, heldur að sýna stuðning og undirstrika það að allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Spurður út í hvenær hann teldi að Norður Írland myndi lögleiða hjónabönd hinsegin fólks sagði hann að það væri einungis tímaspursmál. Tók hann einnig fram í kjölfarið að ákvörðunin væri að sjálfsögðu í höndum norður-írska þingsins en að landið hlyti að fara að feta í fótspor annarra landa í Vestur-Evrópu í þessum málum.

Lýðræðislegi sambandsflokkurinn leggur stein í götu hinsegin fólks

Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, DUP, er stærsti flokkurinn á norður-írska þinginu. Flokkurinn hlaut 28,1 prósent atkvæða í þingkosningum í mars á þessu ári.

Lýðræðislegi sambandsflokkurinn hefur ítrekað komið í veg fyrir lögleiðingu á hjónaböndum samkynhneigðra þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni að meirihluti almennings myndi styðja frumvarp þess efnis.

Trúarbrögð eru veigamikill þáttur í stjórnmálum á Norður-Írlandi en stærstu flokkarnir sækja fylgi sitt annaðhvort til þeirra sem eru mótmælendatrúar eða til kaþólikka. DUP er flokkur mótmælenda. Þess má geta að þeir vilja að Norður-Írland verði áfram hluti af sameinuðu Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×