
Sú sem ók sleðanum lá á gjörgæslu í tvo sólarhringa og því næst á Barnaspítala Hringsins en hefur nú verið útskrifuð þaðan. Samkvæmt lögreglunni á Blönduósi eru stúlkurnar fjórtán ára gamlar.
17 ára aldurstakmark
Vélsleðar teljast til torfærutækja, líkt og fjórhjól, þríhjól og stórir krossarar. Í umferðarlögum gildir um þessi tæki sömu skilyrði og um akstur bíla, það er að ökumaður hafi gilt ökuskírteini.
„Það liggur í hlutarins eðli að til þess að mega aka þessum tækjum þá þarf fólk að vera orðið 17 ára því annars fær það ekki þessi próf sem til þarf," segir Þórhildur Elínardóttir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. „Ástæðan er sú að fólk þarf að vera komið með aldurinn og reynsluna sem það fær í ökunáminu og síðast en ekki síst þarf það að vera komið með ákveðinn þroska til þess að geta metið aðstæður og ekið samkvæmt þeim."
Mun öflugri tæki en áður
Umferðarlögum var breytt í þessa veru árið 1997 en áður var aldurstakmarkið 15 ár. Rökin sem færð voru fyrir lagabreytingunni voru meðal annars að þessi tæki séu orðin mun öflugri en áður.
„Það er brýnt að foreldrar muni eftir því að jafnvel þó að þau séu stödd utan alfaraleiðar eða ekki á vegum þá eru þetta samt kraftmikil tæki sem ekki er sjálfgefið að fólk geti stýrt, nema það hafi reynsluna, aldurinn og réttindin," segir Þórhildur.
„Mannleg mistök koma við sögu í mjög mörgum slysum en með því að sýna aðgát og skynsemi og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda þá mætti koma í veg fyrir mörg slys."

Bergur Stefánsson bráðalæknir hefur farið ófá sjúkraflug vegna slysa á torfærutækjum og séð alvarlega afleiðingar þeirra, meðal annars banaslys. Hann segir marga vanmeta tækin sem þeir eru með í höndunum. Hann bendir á að vélsleðar séu á bilinu 200-300 kíló og geti auðveldlega verið yfir 200 hestöfl.
„Þetta er ekkert smáræði sem þú ert með í höndunum. Sama má segja um fjórhjólin. Þau geta verið miklu þyngri, ferðafjórhjól getur verið 400 kíló, nálægt hálfu tonni ef þú ert með bensín eða annað með þér. Ef þú veltur með því ertu að fá þvílíkt flykki á þig, margoft, og óaverkarnir sem koma eru bæði vegna hraðans ef fólkið dettur af en líka vegna tækisins sem lendir á þér."
Bergur segir brýnt að vekja fólk til vitundar um að torfærutæki þurfi að umgangast af varúð. „Þetta eru alls engin barnaleikföng og ég veit ekki um marga foreldra sem rétta börnunum lyklana að bílnum og segja: „Heyrðu farðu út að leika, farðu varlega“."