Innlent

Bæjarfulltrúi sakar samskiptastjóra bæjarins um ólýðræðislega stjórnsýslu

Bjarki Ármannsson skrifar
Gunnar Axel Axelsson segir Árdísi Ármannsdóttur ekki sinni hlutverki sínu gagnvart Hafnfirðingum.
Gunnar Axel Axelsson segir Árdísi Ármannsdóttur ekki sinni hlutverki sínu gagnvart Hafnfirðingum.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Hafnarfirði, gerir verulegar athugasemdir við störf Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnafjarðarbæjar, í tölvupósti sem Gunnar Axel sendir á Árdísi og fjölmiðla í dag. Vill hann meina að fréttatilkynning nokkur frá Árdísi um störf bæjarins sé á skjön við eðlilega stjórnsýslu.

Árdís sendi fréttatilkynningu á fjölmiðla í morgun undir yfirskriftinni „Veruleg kjarabót fyrir fjölskyldufólk – systkinaafsláttur aukinn og frístundastyrkur hækkaður bæði í upphæð og aldri.“ Í þeirri tilkynningu er fjalllað um samþykktir Fræðsluráðs Hafnarfjarðar á tillögum um breytingar á gjaldskrá og niðurgreiðslum á fræðslu- og frístundasviði. Eiga þessar breytingar að miða að því að minnka kostnað barnafjölskyldna í bæjarfélaginu.

Gunnar Axel, sem bæjarfulltrúi, hefur væntanlega fengið þennan póst frá Árdísi því hann svarar póstinum og sakar hana þar nokkuð beint um að mata upplýsingar ofan í fólk sem henti „einstaka pólitíkusum eða flokkum.“ Ekki verður af lestri bréfisins ráðið hvort Gunnar hafi óvart svarað öllum fjölmiðlum sem fyrri póstinn fengu eða hvort það hafi verið með ráði gert.

„Ég skil vel að það sé spenningur fyrir því að segja frá því sem jákvætt er, sérstaklega þegar hætta er á að kastljós fjölmiðla beinist að einhverjum öðrum ákvörðunum,“ skrifar Gunnar Axel. „Samanber hina ákvörðunina sem meirihluti fræðsluráðs tók í morgun og hvergi er fjallað um, það er að leggja til við bæjarstjórn að verja tugum milljóna króna í rekstur nýs einkaskóla. En þegar opinber aðili starfar með slíkum hætti er hann ekki lengur að sinna hlutverki sínu gagnvart almenningi og þú sem faglega ráðinn upplýsingafulltrúi hætt að starfa sem slíkur og sest við hlið flokkspólitískt kjörinna fulltrúa.“

Gunnar Axel situr í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar en Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð skipa meirihlutannVísir/GVA
Gunnar Axel situr í minnihluta bæjarstjórnar en Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð skipa meirihlutann. Gunnar segir báðar ákvarðanirnar sem teknar voru á fundinum í morgun einfaldlega tillögur til bæjarstjórnar og að fræðsluráð hafi ekki fjárheimildir til að ákveða þær sjálft.

„Hvorug tillagnanna hefur komið til umfjöllunar í bæjarstjórn,“ skrifar hann. „Að ráðast fram með fréttatilkynningu áður en bæjarstjórn hefur svo mikið sem fengið tækifæri til að kynna sér þær og ræða er fullkomlega á skjön við allt sem getur talist eðlileg og lýðræðisleg stjórnsýsla og í mínum huga beinlínis óvirðing við það lýðræðisfyrirkomulag sem við búum við og okkur er ætlað að starfa innan.“

Hann líkur máli sínu á því að segja hagsmuni almennings felast í því að fá sem mestar og bestar upplýsingar en ekki að fá mataðar upplýsingar sem henti einstaka stjórnmálamönnum eða flokkum.

Uppfært 13.30: Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var rangt farið með nafn samskiptastjóra Hafnarfjarðar. Hún heitir Árdís Ármannsdóttir, ekki Ásdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×