Innlent

Alþjóðlegur leiðangur rannsakar stærð hrygningarstofns makríls

Svavar Hávarðsson skrifar
Makríleggjum verður safnað með nýjum háhraða svifháfi, svokölluðum Gulf VII eða "tundurskeytinu“.
Makríleggjum verður safnað með nýjum háhraða svifháfi, svokölluðum Gulf VII eða "tundurskeytinu“. Mynd/Björn Gunnarsson
Hafrannsóknastofnun tekur þátt í fjölþjóðlegum leiðangri þar sem markmiðið er að áætla stærð hrygningarstofns makríls í Norðaustur-Atlantshafi. Leiðangurinn er skipulagður af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), og lét hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson úr höfn í byrjun maí til rannsóknarstarfa.

Mælingarnar eru mikilvægur hluti af stofnstærðarmælingu og þar með mati á veiðiþoli makrílstofnsins. Við stofnmatið er beitt svokallaðri eggjaframleiðslu­aðferð en hún byggir á að meta fjölda eggja á hrygningarsvæði makrílsins. Hrygning makríls hefst við strendur Portúgals í febrúar og teygir sig allt norður í íslensku landhelgina og lýkur í byrjun ágúst.

Sýnatakan er þar af leiðandi gríðar­lega umfangsmikil en alls koma að henni tíu Evrópulönd (Portúgal, Spánn, Írland, Bretland, Holland, Danmörk, Þýskaland, Noregur, Færeyjar og Ísland) og ellefu rannsóknastofnanir og er hún framkvæmd þriðja hvert ár. Á vegum þessara stofnana eru farnir tuttugu rannsóknaleiðangrar frá því í febrúar og fram í ágúst.

Hafrannsóknastofnun tekur nú þátt í verkefninu í þriðja sinn og verður rs. Bjarni Sæmundsson við rannsóknir í tvær vikur á hafsvæðinu milli Skotlands og Færeyja.

Bráðabirgðaniðurstöður verkefnisins munu liggja fyrir í haust.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×