Innlent

Röng vottun ógilti kaupmála

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vottar skjalsins voru hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum.
Vottar skjalsins voru hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum. vísir/vilhelm
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands um ógildingu kaupmála hjóna. Ástæða ógildingarinnar var sú að ekki var staðið rétt að vottun hans.

Kaupmálinn sem um ræðir var gerður milli hjóna í nóvember 2005 þar sem maðurinn lá sjúkur. Maðurinn lést árið í janúar 2006 og sat eiginkona hans í óskiptu búi þar til hún gekk í hjónaband á ný í nóvember 2014.

Með kaupmálanum var íbúð í Reykjavík og tveir sumarbústaðir í Reykjavík gerð að séreign konunnar. Börn hjónanna gerðu kröfu um að ekki yrði litið til kaupmálans við skipti á dánarbúi föður þeirra. Þeir töldu að ekki hefði verið rétt staðið að vottun skjalanna auk þess að dregið var í efa að maðurinn hafi gert sér grein fyrir efni skjalanna á þessum tíma sökum heilsuskorts. Ýjuðu þau meðal annars að því að undirskrift hans á skjalinu hefði verið fölsuð.

Rithandarsérfræðingur var kallaður til til að meta hin umdeildu skjöl. Í mati hans kemur fram að gífurlegur munur sé á nafnritunum og verði hann ekki skýrður á annan hátt en svo að þær stafi ekki frá sama manninum. Hin meinta fölsun var kærð til lögreglunnar sem hætti rannsókn sinni á henni á haustmánuðum síðasta árs.

Tveir hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum vottuðu kaupmálann. Fyrir dómi báru þær því við að þær myndu lítt eftir þessu atviki en þær hefðu ekki verið viðstaddar þegar sjúklingurinn ritaði nafn sitt á blaðið. Önnur þeirra sagði svo frá að hún hefði aðeins verið að votta að þetta væri sami einstaklingur og lá í sjúkrarúminu.

Í héraði var kaupmálinn ógiltur á þeim grundvelli að líkur bentu til þess að undirskriftirnar væru falsaðar og að vottun hefði verið ábótavant. Hæstiréttur tók ekki afstöðu til meintrar fölsunar en þar sem ekki þótti sýnt fram á að hjúkrunarfræðingarnir hefðu verið viðstaddir undirritun mannsins, líkt og áskilið er í hjúskaparlögum, var niðurstaða héraðsdómara staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×