Skoðun

Ekkert barn búi við fátækt á Íslandi árið 2020!

Starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar skrifar
Við undirrituð, starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar, skorum á nýkjörna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi að móta tafarlaust stefnu í þágu barna sem búa við verulegan skort á Íslandi og tímasetja markmið um að ekkert barn búi við fátækt á Íslandi árið 2020.

Samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands um sára fátækt frá 13. september síðastliðnum bjuggu í fyrra um 1,3% landsmanna eða um 4300 manneskjur við verulegan skort á þeim lífsgæðum sem þykja eðlileg í íslensku samfélagi svo sem að geta staðið í skilum á greiðslum fyrir húsnæði og lánum, geta haldið húsnæðinu heitu, geta farið í vikulangt frí með fjölskyldunni árlega, haft efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltið annan hvern dag, geta mætt óvæntum útgjöldum, hafa efni á síma, sjónvarpstæki, þvottavél eða bíl. Manneskja sem býr við sára fátækt hefur ekki efni á fjórum af níu ofangreindum lífsgæðum og getur ekki haldið í við almennar neysluvenjur í samfélaginu.

Gögn Hagstofunnar sýna fram á að heilsufar, staða fólks á húsnæðismarkaði sem og heimilisgerð hafi töluvert forspárgildi um sára fátækt. Þannig leiðir bág heilsa og örorka til lágra ráðstöfunartekna sem setur fólki þröngar skorður á húsnæðismarkaði. Sama á við um einstæða foreldra og þá sem búa einir. Niðurstaða Hagstofunnar er líka skýr um það að sár fátækt er tíðari á meðal leigjenda en húsnæðiseigenda. Það liggur því í augum uppi að grípa þarf til almennra aðgerða á húsnæðismarkaði og að tryggja þarf aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Við sem samfélag viljum tryggja hag barnanna okkar. Til þess þurfum við skýra stefnu og sértækar aðgerðir í þágu fólksins sem býr við þannig aðstæður að það getur ekki óstutt tryggt börnum sínum þau lífsgæði sem þykja sjálfsögð á Íslandi. Við erum ríkt samfélag af efnislegum gæðum. Sértæku aðgerðirnar krefjast fjármagns og því verðum við að forgangsraða í þágu barnanna okkar allra.

Atli Geir Hafliðason

Áslaug Arndal

Bjarni Gíslason

Kristín Ólafsdóttir

Sædís Arnardóttir

Vilborg Oddsdóttir

starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar

 

Þessi grein birtst fyrst í Fréttablaðinu.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.