Innlent

Tónlistarkennarar fá betri laun sem barþjónar en í skólunum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Við teljum það sanngjarnar kröfur þegar við förum fram á að launabilið sem myndaðist þegar við drógumst aftur úr verði minnkað.

Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Við teljum það sanngjarnar kröfur þegar við förum fram á að launabilið sem myndaðist þegar við drógumst aftur úr verði minnkað. Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Dagrún Hjartardóttir
„Staðan er grafalvarleg. Það er erfitt að manna tónlistarskóla og við höfum heyrt að tónlistarkennarar hafi ráðið sig sem kaffibarþjóna og fengið hærri laun.“ Þetta segir Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, FT. Félagið hefur fundað fjórtán sinnum hjá ríkissáttasemjara frá því að samningar voru lausir 31. október í fyrra. Tónlistarkennarar vilja að launabilið sem myndaðist milli grunnskólakennara og tónlistarkennara árið 2008 verði minnkað.

„Við misstum þá úr samningalotu. Grunnskólakennarar sömdu fyrir október það ár en okkar samningar voru ekki lausir fyrr en í nóvember. Við fengum eingreiðslu upp á 20.300 krónur. Við erum í raun að keppa að því að minnka launabilið sem myndaðist þá milli samanburðarhópa,“ segir Dagrún.

Hún getur þess að stéttin vilji vera virt að verðleikum og að störfin verðin metin til jafns við störf kennara í annars konar skólum. „Það sem er uppi á borðum festir hins vegar launamuninn í sessi.“

Það er mat tónlistarkennara að þeir séu með allt að 15 prósentum lægri laun en grunnskólakennarar. „Það mætti ætla að launabilið yrði enn meira þegar búið er að semja við grunnskólakennara. Við teljum það sanngjarnar kröfur þegar við förum fram á að launabilið sem myndaðist þegar við drógumst aftur úr verði minnkað,“ leggur Dagrún áherslu á.

Hún segir tónlistarkennara bjartsýna. „Þetta er réttlætismál. Það vilja allir sveitarstjórnarmenn hafa tónlistarskóla í sínu héraði. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra og snýr að lífsgæðum.“

Tónlistarkennarar fóru í verkfall síðla árs 2014 sem stóð í fimm vikur. Nú eru tónlistarkennarar farnir að hugsa sér til hreyfings.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.