Handbolti

Ásgeir Örn missir af landsleikjunum en fékk nýjan samning hjá Nimes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Vísir/EPA
Ásgeir Örn Hallgrímsson verður ekki með íslenska landsliðinu á móti Tékkum í undankeppni EM en fyrsti leikur strákanna okkar í riðlinum fer fram í Laugardalshöllinni annað kvöld.

Ásgeir Örn hefur ekki getað æft með íslenska liðinu og nú er ljóst að hægri skyttan verður ekki með liðinu í næstu tveimur leikjum því hann mun heldur ekki ná Úkraínuleiknum um næstu helgi.  Ásgeir fór úr lið á fingri og á enn nokkuð í land að verða leikfær.

Ásgeir Örn leikur með franska liðinu Nimes og félagið tilkynnti það á heimasíðu sinni að íslenski landsliðsmaðurinn hafi skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Ásgeir Örn kom til Nimes frá Paris Saint-Germain árið 2014 en hann hefur spilað sem atvinnumaður frá árinu 2005. Ásgeir Örn gerði þriggja ára samning við Nimes þegar hann kom 2014 en hann hefur nú framlengt samning sinn til ársins 2019.

Ásgeir Örn missti af síðustu þremur leikjum Nimes vegna meiðsla en hann lék síðast með liðinu 5. október síðastliðinn.  Ásgeir meiddist þá í leik á móti Toulouse eftir að hafa byrjað mótið mjög vel og skorað 10 mörk úr aðeins 14 skotum í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.

Ásgeir Örn Hallgrímsson verður 33 ára gamall í febrúar næstkomandi en hann verður því 35 ára þegar þessi nýi samningur hans rennur út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×