Skoðun

Skuldum við eldra fólki eitthvað?

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar
Það er von að sé spurt. Í aðdraganda kosninganna hefur komið fram að kjósendur telja málefni eldra fólks með þeim mikilvægustu fyrir kosningar. Fólk er greinilega að velta fyrir sér hvort staðan í málefnum aldraðra sé náttúrulögmál. Hvort það sé sjálfsagt að vanvirða eldra fólk með því að þvæla því á milli staða og jafnvel landshluta í leit að úrræðum, og hvort það sé bara allt í lagi að eldra fólk bíði lengur en aðrir eftir sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu.  Við þurfum að snúa af þeirri braut að líta á þjónustu eða búsetuúrræði fyrir eldra fólk sem ölmusu. Við þurfum að endurforrita okkur sjálf. Við þurfum að skilja að eldra fólk er fólk alveg eins og aðrir, með væntingar, vonir og þrár.

Kynslóðin sem fæddist milli heimsstyrjalda er sú sem byggði upp heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almanntryggingakerfið. Sú sem skilaði samfélaginu til okkar hinna þannig að við gætum haldið áfram að gera það betra. 

Allar  kynslóðir eiga að tryggja að þær sem á undan komu geti búið með reisn og notið þess að vera hluti af samfélagi. Geti tekið þátt,  en upplifi sig ekki sem byrði. Hafi aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að samfélagsleg staða þeirra ráði því ekki hvort þau fái hana eða ekki. Það er mikilvægt,  alveg eins og allir eru sammála um mikilvægi þess að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Samfélag sem ekki ber virðingu fyrir og hefur skilning á hvaðan það kemur, mun á endanum ekki vita hvert það er að fara.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×