Körfubolti

Fyrrverandi leikmaður Barcelona á Krókinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samb í leik með Barcelona fyrir nokkrum árum.
Samb í leik með Barcelona fyrir nokkrum árum. vísir/getty

Tindastóll hefur samið við miðherjann Mamadou Samb um að leika með liðinu í Domino's deild karla í körfubolta í vetur.

Þetta kemur fram á vef Feykis en þar er talað um að Samb sé einn besti leikmaður sem Tindastóll hefur náð í lengi.

Samb þessi er frá Senegal en fluttist 14 ára gamall til Spánar og er með spænskan ríkisborgararétt. Samb er 26 ára og telur 2,08 metra.

Samb kemur í stað Bandaríkjamannsins Antonio Hester sem átti að koma á Krókinn. Stólarnir tefla fram tveimur erlendum leikmönnum í vetur en félagið var þegar búið að semja við Seck Pape Abdoulaye frá Senegal.

Samb hefur undanfarin tvö tímabil leikið með CB Breogán í næstefstu deild á Spáni. Hann var með 9,6 stig og 4,1 frákast að meðaltali í leik í fyrra. Samb var á sínum tíma á mála hjá Barcelona og lék með Jóni Arnóri Stefánssyni hjá Granada.

Sjá einnig: Israel Martin aftur á Krókinn

Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, kveðst í samtali við Feyki vera afar ánægður með þessi félagaskipti.

„Það er alveg á tæru að það er farið að skila sér hressilega í Skagafjörðinn að vera með færa þjálfara innan sinna raða og mikið ánægjuefni fyrir okkur að geta fengið leikmann til okkar af þessu kaliberi,“ er haft eftir Stefáni.

„Þjálfari liðsins Jou Costa þekkir leikmaninn vel sem þjálfari hans fyrir nokkrum árum. Mamadou Samb hefur leikið með mörgum liðum á Spáni meðal annars hefur hann leikið með okkar besta leikmanni Jóni Arnóri Stefánssyni sem og að vera á mála hjá stórliði Barcelona.“

Tindastóll sækir Íslands- og bikarmeistara KR heim í 1. umferð Domino's deildarinnar 6. október næstkomandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.