Innlent

Fræða mest um intersex og transfólk

Sæunn Gísladóttir skrifar
Víðistaðaskóli er fyrsti skólinn sem fær heimsókn frá Samtökunum ´78.
Víðistaðaskóli er fyrsti skólinn sem fær heimsókn frá Samtökunum ´78. Mynd/Vifgús Hallgrímsson
Hinsegin fræðsla á vegum Samtakanna ’78 hófst í síðustu viku í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Starfsfólk allra grunnskóla í Hafnarfirði mun fá fræðslu fyrir lok skólaársins. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fræðslufulltrúi samtakanna, sem hélt fyrirlesturinn, segir viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. Hún segir vonir um að fá að koma á fræðslu í fleiri sveitarfélögum landsins.

Fræðsla fyrir starfsfólk grunnskóla er einn liður af fjórum í samkomulagi sem Hafnarfjarðarbær gerði við Samtökin ’78. Auk fræðslu fyrir starfsfólk verður árleg fræðsla í áttunda bekk fyrir nemendur og ungmenni úr Hafnarfirði geta leitað eftir þjónustu Samtakanna ’78 eftir þörfum án endurgjalds.

„Við fengum rosa góðar móttökur. Eftir fræðsluna fylltu kennararnir út miða þar sem þeir voru að meta fræðsluna og það var yfirgnæfandi meirihluti sem fannst þetta vera mjög gagnlegt. Við erum í skýjunum yfir því hvað þetta tókst vel,“ segir Ugla Stefanía. Í september byrjar svo fræðsla fyrir nemendur í áttunda bekk.

Ugla Stefanía segir mikilvægt að fræða starfsfólk jafnt sem nemendur. „Þetta er einn hluti af því að gera starfsfólk hæfara til að taka á alls konar fólki. Það er mikilvægt að kennarar og starfsfólk séu meðvituð um hinsegin málefni og séu í stakk búin til að hjálpa nemendum sem eru að koma út úr skápnum hvort sem þeir eru samkynhneigðir eða trans.“

Ugla Stefanía segir fræðsluna snúa mikið að trans og intersex málefnum. „Það eru málefni sem fólk hefur ekki rosalega mikla vitneskju um. Það er kannski aðallega að fólk fái að heyra af fjölbreytileikanum.“

Samtökin ’78 eru með samning við Reykjavíkurborg um fræðslu fyrir starfsfólk og nemendur í skólum þar. „Það er okkar von að fleiri sveitarfélög muni vilja gera samning við okkur. Við vitum að við gerum þetta vel og erum fagmannleg í því sem við gerum. Við erum í stakk búin að takast á við það ef fleiri sveitarfélög sjá tækifæri í að fá okkur,“ segir Ugla Stefanía.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.