Skoðun

Hvers vegna Norðurlönd?

Elín Björg Jónasdóttir skrifar
Hvað er það við Noreg, Svíþjóð og Danmörku sem ekki bara dregur unga Íslendinga til þessara landa, heldur fær marga þeirra til að setjast þar að með fjölskyldum sínum? Þetta er spurning sem nauðsynlegt er að svara, enda eftirsjá í hverri einustu íslensku fjölskyldu sem ákveður að setjast varanlega að utan Íslands.

Eitt af því sem heyrist aftur og aftur er að áherslurnar séu aðrar hjá þessum nágrannaþjóðum okkar. Í stað þess að þurfa að vinna myrkranna á milli gefist tími til að eyða með fjölskyldu og vinum. Það er þetta fjölskylduvæna samfélag sem við Íslendingar þurfum að reyna að nálgast.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB nefna jafnan styttingu vinnuvikunnar sem eitt af mikilvægustu málunum sem bandalagið berst fyrir. Við fyrstu sýn virðist það eingöngu launafólki í hag að stytta vinnutímann án þess að skerða laun, en niðurstöður tilraunaverkefna hér á landi og víðar sýna að það er ekki síður hagur launagreiðandans að stytta vinnuvikuna.

Tilraunaverkefni í gang í haust

Þetta má til dæmis lesa úr tilraunum fyrirtækja og stofnana með styttingu vinnuvikunnar í Svíþjóð. Hér á Íslandi hefur Reykjavíkurborg, í samstarfi við BSRB, staðið fyrir tilraunaverkefni þar sem vinnuvikan á tveimur vinnustöðum var stytt. Niðurstöður eftir rúmt eitt ár voru kynntar í vor og lofa afar góðu. Starfsmenn merkja betri líðan, starfsánægja hefur aukist og dregið hefur úr veikindum. Ekkert bendir til þess að dregið hafi úr afköstum þó unnið sé í færri klukkustundir.

Nú að loknum sumarleyfum fer í gang tilraunaverkefni ríkisins og BSRB þar sem áhrif styttingar vinnuvikunnar verða rannsökuð enn frekar. Valdir verða nokkrir vinnustaðir til að taka þátt í verkefninu, þar á meðal vinnustaður þar sem unnið er í vaktavinnu. Það verður afar áhugavert að sjá niðurstöður verkefnisins, enda er það bjargföst trú okkar hjá BSRB að stytting vinnuvikunnar komi öllum til góða, bæði starfsmönnum og launa­greiðendum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×